Gistiaðstaða
Öll gistiaðstaðan er í göngufæri frá aðalbyggingunni þar sem móttakan og veitingastaðurinn er.
Litli Geysir er gisting í 22 herbergjum í hótelbyggingu beint á móti hinum heimsfræga Geysi í Haukadal. Öll herbergin eru með sérbaðherbergi, sjónvarpi, hárþurrku og ókeypis nettengingu. Morgunverður er framreiddur frá kl. 8-10 á Litla Geysi.
Einnig á svæðinu:
Hótel Geysir
Tjaldsvæði:
Á Geysi er einnig rúmgott tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla og húsvagna. Öll gistiaðstaðan er í göngufæri frá aðalbyggingunni þar sem móttakan og veitingastaðurinn er.
Veitingar/máltíðir
Yfir vetrartímann er veitingastaður opinn fyrir gesti frá kl. 18-21 á Litla Geysi. Yfir sumartímann geta gestir borðað á veitingastaðnum Hótel Geysir. Mjög góður veitingastaður þar sem lögð er áhersla á rétti úr innlendu og heimafengnu hráefni. Veitingastaðurinn rúmar allt að 600 manns í sæti og þar er góð aðstaða til að halda veislur fyrir minni eða stærri hópa og fundi. Við hliðina á hótelinu, í Geysir Center, er annar veitingastaður, Geysir Glima Restaurant, bístró þar sem í boði er matur úr heimafengnu og innlendu hráefni. Í Geysir Center er einnig skyndibitastaður þar sem má fá hamborgara, pizzur, súpu og eitt og annað af léttara taginu.
Þjónusta/afþreying
Minjagripaverslun og verslunin Geysir með útivistarfatnað og fleira. Við hótelið er 9 holu golfvöllur. Gönguleiðir. Hestaferðir (5 km). Flúðasiglingar á Hvítá (16 km). Siglingar á hraðbátum upp eftir Hvítá (27 km). Sundlaug í Reykholti (19 km). Laugarvatn Fontana, spa and wellness centre (29 km). Næstu þéttbýli með verslun og ýmissi annarri þjónustu: Reykholt (19 km), Flúðir (25 km) og Selfoss (61 km).
Hversvæðið við Geysi - gönguleiðir
Hversvæðið við Geysi er eitt kunnasta jarðhitasvæði á Íslandi. Þar er frægasti goshver í heimi, Geysir (The Great Geysir), en gos úr honum um miðja síðustu öld náðu 60 – 80 m. Gos í Geysi hafa verið stopul í nokkra áratugi. Goshverinn Strokkur, skammt frá sjálfum Geysi, gýs hins vegar myndarlega á 10-15 mín. fresti. Frá Geysi liggur malarvegur inn í skógrækt í Haukadal (2 km). Þar eru merktar gönguleiðir. Í gegnum skóginn liggur vegaslóði upp á hálendisbrúnina; tilvalið að ganga þar upp og njóta kyrrðarinnar og útsýnis til fjalla og jökla.
Gullfoss – fegursti foss í Evrópu
Gullfoss (10 km) er frægasti foss á Íslandi og mörgum þykir hann einn fegursti foss í Evrópu. Fossinn fellur eftir tveimur þrepum niður í djúpt gljúfur og er hrífandi sjón hvort sem að sumri eða í klakaböndum að vetri. Hjá ferðamannamiðstöðinni við Gullfoss liggur fjölfarinn hálendisvegur milli Suður- og Norðurlands.
Skálholt, Þingvellir, Þjórsárdalur
Skálholt (29 km), var biskups- og menntasetur frá miðri 11. öld fram undir aldamótin 1800, staður sem á sér mikla sögu. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum (48 km) er með fegurstu stöðum á Íslandi. Þar var Alþingi Íslendinga háð í nær 9 aldir og þar var íslenska lýðveldið sett formlega á stofn 17. júní 1944. Þjórsárdalur (80 km) er sérstæð náttúruparadís í grennd við eldfjallið Heklu, óskaland þeirra sem vilja setja á sig gönguskóna og upplifa fjölbreytni íslenskrar náttúru. Í Þjórsárdal má einnig skoða endurgerðan bóndabæ frá víkingaöld.
Gestgjafi: Mábil Gróa.