Vottanir og Gild leyfi Hey Iceland
Ferðamálastofa
Ferðaþjónusta bænda hf. Hey Iceland / Bændaferðir er leyfishafi Ferðamálastofu.
Ferðaþjónusta bænda hf. er með fullt ferðaskrifstofuleyfi frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, sem ennfremur hefur eftirlit með rekstrinum.
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)
Ferðaþjónusta bænda hf. Bændaferðir / Hey Iceland er meðlimur í Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF)
Vakinn vottun
Ferðaskrifstofan er vottuð af Vakanum en við leggjum mikla áherslu á sjálfbærni í starfsemi okkar og ábyrga ferðaþjónustu til að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem starfsemi okkar kann að hafa á umhverfið og samfélagið.
Fyrirmyndarfyrirtæki í Rekstri
Við erum stolt af því að Ferðaþjónusta bænda hf. / Hey Iceland hefur hlotið vottunina Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri fyrir árið 2024. Við erum því meðal 2,7% íslenskra fyrirtækja sem uppfylla ströng skilyrði Viðskiptablaðsins og Keldunnar.
Forsendur vottunar eru:
- Afkoma er jákvæð
- Tekjur eru umfram 45 milljónir króna
- Eignir eru umfram 80 milljónir króna
- Eiginfjárhlutfall er umfram 20%
Nánar um viðurkenninguna hjá Keldunni
Útflutningsverðlaun Forseta Íslands 2011
Mánudaginn 16. maí 2011, veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Ferðaþjónustu bænda Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það var Sævar Skaptason framkvæmdastjóri sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.
Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar. Úthlutunarreglur kveða á um að verðlaunin skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.
Fram kom í ávarpi formanns úthlutunarnefndar Friðriks Pálssonar að Ferðaþjónusta bænda fái verðlaunin fyrir þá forystu sem fyrirtækið hefur sýnt í þróun ferðaþjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins, fyrir afburða árangur í sölu og markaðsmálum og fyrir þá framsýni sem fyrirtækið hefur sýnt í að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í starfsemi sinni. Ferðaþjónusta bænda er góður fulltrúi fyrir þann vaxandi fjölda fyrirtækja sem laða til landsins erlenda gesti, veita þeim afbragðs góða þjónustu og gera dvöl þeira hér á landi að ógleymanlegri upplifun.

Ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugrein í heimi – og er þá sama hvort litið er á greinina út frá veltu, fjölda starfa eða fjölda fyrirtækja og er áætlað að á þessu ári muni einn milljarður mann leggja land undir fót og nýta sér þjónustu fyrirtækja í þessari grein. Vöxtur ferðaþjónustunnar hér á landi hefur einnig verið ævintýralegur. Erlendir gestir sem komu til landsins árið 1980 voru 65.000, en 30 árum síðar þ.e. í fyrra voru þeir um 500.000. Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar hafa aukist að sama skapi á þessu tímabili og nema nú um 20% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Fullyrða má að starfsemi Ferðaþjónustu bænda hafi lyft Grettistaki fyrir íslenskar sveitir og að þær væru fámennari og fátæklegri ef ekki væri fyrir þá merkilegu starfsemi sem unnin er á vegum fyrirtækisins og félags ferðaþjónustubænda. Hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu hefur verið höfð að leiðarljósi og áhersla lögð á aukna fagmennsku með þátttöku í verkefnum tengdum gæða- og umhverfismálum og nú síðast vöruþróunarverkefnum með áherslu á lengingu ferðamannatímabilsins.
Verðlaunagripurinn Gróska gerður af Ingu Elínu myndlistarmanni
Ferðaþjónusta bænda fær í hendur sérhannaðan verðlaunagrip
og skjal, auk þess sem verðlaunahafi fær leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu. Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Ingu Elínu myndlistarmanni en merki Útflutningsverðlaunanna er hannað af Hilmari Sigurðssyni.
Listaverkið eftir Ingu Elínu heitir Gróska og er unnið í gler og steypu. Listamaðurinn lýsir verkinu þannig: Samþætting jökla og gróskunnar úr íslenskri jörð. Vöxtur aðdáunar heimsins á tærleika landsins.
Heiðursviðurkenning
Í tilefni þeirra tímamóta að Íslandsstofa tekur nú við umsjón verðlaunanna ákvað úthlutunarnefndin þess vegna því að festa í sessi veitingu sérstakrar heiðursviðurkenningar til einstaklinga sem með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. Í ár er það Kristinn Sigmundsson óperusöngvari sem hlýtur heiðursviðurkenninguna.
Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.