Saga Ferðaþjónustu bænda



Saga Ferðaþjónustu bænda

Ferðaþjónusta bænda hf. (FB hf.) Síðumúla 2 í Reykjavík annast markaðsetningu og sölu á þeirri þjónustu sem félagar í Félagi ferðaþjónustubænda (FFB) bjóða.

Merki Ferðaþjónustu bænda   Nýtt merki Ferðaþjónustu bænda - Hey Iceland - tekið í notkun sept 2016


 

Upphaf Ferðaþjónustu bænda 

Ferðaþjónusta á vegum bænda hefur að öllum líkindum verið til frá upphafi byggðar í landinu og lengst af einvörðungu falist í gestrisni þeirra. Ekki er að finna skipulagða ferðaþjónustu fyrr en árið þegar Flugfélag Íslands hóf að gefa erlendum ferðamönnum kost á að dvelja á íslenskum sveitaheimilum gegn gjaldi. Flugfélagið auglýsti eftir sveitaheimilum sem hefðu hug á að bjóða erlendum ferðamönnum þjónustu sína og fékk mann að nafni Gunnar Hilmarsson til að skoða aðstæður hjá þeim sem svöruðu auglýsingunni. Ákveðið var að fimm bæir skyldu bjóða þessa þjónustu. Í upphafi voru þetta bæirnir: Stóra-Borg í Víðidal í V-Húnavatnssýslu, Efri-Hreppur í Skorradal í Borgarfjarðarsýslu, Hvítárbakki í Bæjarsveit, Laugarbakki í Miðfirði í V-Húnavatnssýslu og Fljótstunga í Hvítársíðu í Mýrarsýslu. 

Flugfélagið stóð vel að kynningu bæjanna og í október 1969 kom út viðamikill bæklingur sem hafði að geyma  myndir og upplýsingar um hvern bæ. Árið 1965, fyrsta árið sem ferðaþjónusta var starfrækt á bæjunum, voru gistinætur alls 330 talsins eða 66 nætur að meðaltali á hvern bæ. Árið 1971 fjölgaði bæjunum í 14 og gistinæturnar urðu 550 sem að vísu skiptust aðeins niður á 11 bæi, þjónusta þriggja bæja nýttist ekki.  Árið 1990 var ferðaþjónusta rekin á fimm þessara bæja. Að vísu hafa orðið nokkur hlé á rekstri bæjanna frá byrjun, nema í Fljótstungu þar sem hann hefur gengið sleitulaust. Í fyrstu var þessi þjónusta einungis boðin útlendingum. Menn vissu dæmi þess að Íslendingar fengu þær upplýsingar um þjónustuna að hún væri einungis ætluð útlendingum. Til gaman má nefna að á bænum Fljótstungu í Hvítársíðu gisti fyrsti Íslendingurinn árið 1976. Tveimur árum síðar gistu þar íslenskir leiðsögumenn og árið 1979 dvöldu þar íslensk hjón í heila viku. Árið 1988 voru 65% gestanna á bænum hins vegar Íslendingar.

 
Ferðaþjónusta og atvinnumál bænda 

Á Búnaðarþingi árið 1971 var í fyrsta skipti rætt um ferðaþjónustu í tengslum við atvinnumál bænda og hafði Bjarni Arason forgöngu um þá umræðu. Hann áleit að í ferðaþjónustu væru miklir möguleikar fyrir bændur ef vel væri að staðið og áhersla lögð á afþreyingu eins og veiði, hestamennsku o.fl. Hugmyndir Bjarna virðast standast tímans tönn því tuttugu árum síðar eru mjög svipaðar hugmyndir hafðar að leiðarljósi varðandi starfsemi í Ferðaþjónustu bænda.

Ferðaþjónustubændur héldu sinn fyrsta formlega fund í október 1973 á Úlfsstöðum í Borgarfirði. Þessi fundur var haldinn að frumkvæði Ingibjargar Bergþórsdóttur í Fljótstungu og Hjalta Sigurbjörnssonar á Kiðafelli vegna óánægju um verðlagsmál. Gagnvart bændum gaf Flugfélagið út verðskrár í íslenskum krónum snemma á haustin og giltu þær í eitt ár. Verðbólga var mikil á þessum árum og rýrnuðu tekjur ferðaþjónustubænda á því tímabili sem leið frá því verð var ákveðið þar til þeir fengu þjónustu sína greidda.

Árangur fundarins var sá að ferðaþjónustubændur fengu greitt fyrir þjónustu sína samkvæmt gengi bandaríkjadollar á hverjum tíma. Má segja að þessi fundur hafi verið fyrsta merki um samstöðu ferðaþjónustubænda sem síðar leiddi til stofnunar samtaka þeirra.

Eins og áður segir stóð Flugfélag Íslands að útgáfu auglýsingabæklings um ferðaþjónustubæina. Við sameiningu Flugfélags Íslands og Loftleiða árið 1973 var þeirri útgáfu hætt og áherslan á ferðaþjónustu á vegum bænda minnkaði. Að vísu birtust auglýsingar varðandi hana í nokkrum erlendum bæklingum.

 
Félag ferðaþjónustubænda stofnað 

Í febrúar 1980 voru samtök Ferðaþjónustu bænda "Félag ferðaþjónustubænda" stofnuð. Frumkvæðið að stofnuninni áttu Kristleifur Þorsteinsson á Húsafelli, Eiríkur Eyvindsson á Laugarvatni og Björn Sigurðsson í Úthlíð í samvinnu við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands. Einn helsti tilgangurinn með stofnum samtakanna var að freista þess að koma ferðaþjónustu inn í stofnlánakerfi landbúnaðarins. Þetta hafði ekki tekist í byrjun árs 1991 þótt margt annað hafi vissulega áunnist síðan samtökin voru stofnuð.Kristleifur Þorsteinsson var fyrsti formaður Ferðaþjónustu bænda. Næstur tók við Björn Sigurðsson og var Kristinn Jóhannsson á Kverná eftirmaður hans. Á árunum 1987-1990 gegndi Paul Richardson þessu starfi og árið 1990 var starfandi formaður samtakanna Ingi Tryggvason á Narfastöðum.

 
Fyrsti starfsmaður Ferðaþjónustu bænda

Árið 1982 var fyrsti starfsmaður samtakanna ráðinn í hálfa stöðu, Oddný Björgvinsdóttir. Þá má segja að skipuleg starfsemi samtakanna hafi hafist fyrir alvöru. Það var Stéttarsamband bænda og Búnaðarsamband Íslands sem stóðu straum af kostnaði við ráðninguna. Starfið fólst fyrst um sinn í almennri atvinnumiðlun fyrir bændur, umsjón með orlofsvikum bænda og skipulag sumardvalar barna í sveit ásamt málefni ferðaþjónustu bænda. Í byrjun var erfitt að fá ferðaþjónustu viðurkennda sem fullgilda búgrein. Litið var á hana sem aukabúgrein sem ætti að gefa bændum nokkrar aukatekjur. Að lifa eingöngu af henni var talið ómögulegt og til eru þeir sem enn eru þeirrar skoðunar. Þó má segja að nokkur árangur hafi náðst í þessu sambandi árið 1987, en í fjárlögum þess árs var gert ráð fyrir launum ráðunauts í ferðaþjónustu. Um vorið 1987 lét Oddný af störfum sem framkvæmdastjóri og við tók Paul Richardson sem var jafnframt formaður FFB. Hann gengdi framkvæmdastjórastarfi hjá félaginu frá 1987 - 1997 og hjá FB hf frá stofnun þess 1991 til 1998

 
Hlutafélag Ferðaþjónustu bænda hf stofnað 

Hlutafélagið Ferðaþjónusta Bænda hf var stofnað þann 10. júlí 1991, tilgangur þess var rekstraraðili ferðaskrifstofunnar. Félagið er í eigu Félags Ferðaþjónusta bænda, einstakra bænda og starfsfólks skrifstofunnar. Stofnun hlutafélagsins var talin nauðsynleg vegna vaxandi áhætturekstur ætti ekki heima í rekstarformi hagsmunastarfsemi og reksturinn ólöglegur samkvæmt skipulag ferðamála. Nauðsynlegt var að hafa ferðaskrifstofuleyfi.

 
Þróun skrifstofunnar

Árið 1983 var skipulagt námskeið fyrir ferðaþjónustubændur og í maí sama ár kom fyrsti bæklingur Ferðaþjónustu bænda út. Upplag hans var 4000 eintök á íslensku og 10.000 eintök á ensku. Haustið 1986 voru bændur hvattir til að hugleiða nýsköpun í landbúnaði þ.á.m. ferðaþjónustu. E.t.v. einkenndist umfjöllun um ferðaþjónustu af of mikilli bjartsýni þar sem hátt í 100 bændur höfðu samband við skrifstofu Ferðaþjónustu bænda til að lýsa yfir áhuga sínum á þessari búgrein. Í kjölfarið fylgdi mikið annríki á skrifstofunni og var fastráðnum starfsmönnum fjölgað í þrjá. Stjórn samtakanna mótaði stefnu vorið 1987 sem fól í sér m.a. beina þátttöku í markaðs- og sölustarfsemi. Þetta atriði hefur verið hornsteinn starfseminnar síðan

Á þessu tímabili vann skrifstofa Ferðaþjónustu bænda mörg þróunarverkefni í markaðssetningu þjónustunnar, m.a. sölukerfi fyrir silungsveiði í vötnum og ám og skipulagningu á námsferðum erlendra nemendahópa til Íslands. Ferðaþjónusta bænda hefur líka unnið að undirbúningi á útgáfu “ A Saga Travellers Guide to Iceland” eftir Dr. Marijane Osborn með það fyrir augum að höfða til markhóps sem hefur áhuga á íslenskri menningu. Á sama tímabili hefur Ferðaþjónusta bænda kynnt almenningi á Íslandi þá þjónustu sem fyrir hendi er á bæjunum með umfjöllun í fjölmiðlum eða auglýsingum. Fræðsla fyrir félagsmenn hefur líka verið ofarlega á baugi og samvinnuverkefnið við Bréfaskólann og Iðntæknistofnun “Fjarnám í ferðaþjónustu” er árangur tveggja ára starfs.

Árið 1990 hafði skrifstofa Ferðaþjónustu bænda í fyrsta skipti milligöngu um hópferðir í samvinnu við ferðaskrifstofur auk þess að setja saman sínar eigin ferðir.Þetta er liður í því að skrifstofan skapi rekstrargrundvöll fyrir þá sölustarfsemi sem þar fer fram. Þessi þróun er sambærileg við það sem hefur gerst eða er að gerast í sölumálum ferðaþjónustu á vegum bænda öðrum Evrópulöndun. Þá hefur skrifstofan einnig lagt áherslu á að auka framboð og fjölbreytni í því sem ferðaþjónustubændur hafa upp á að bjóða varðandi afþreyingu gestanna auk þess sem rík áhersla er lögð á lengingu nýtingar tímans.

 
Ferðaþjónusta bænda í dag

Í dag eru rúmlega 170 ferðaþjónustubæir innan Ferðaþjónusta bænda með yfir 5000 gistirými. Til þess að gerast aðili í Ferðaþjónusta bænda þarf viðkomandi bær að vera lögbýli en ekki er gerð krafa um búskap á bænum. Þeir bæir sem eru innan Ferðaþjónusta bænda dreifast um allt landið en flesta er þó að finna á Suðurlandinu. Nánari upplýsingar um umsókn í félagið er hægt að nálgast hér. Flokkunarkerfi var tekið í notkun 2004, uppfært miðað við þá breytingu sem hafði orðið á gæðum innan Ferðaþjónstu bænda. Flokkunarkerfið nær vel yfir þá fjölbreyttu flóru herbergja og þjónustu sem Ferðaþjónstubændur bjóða uppá. Nánari upplýsingar um flokkunarkerfið má finna með því að smella hér
 
 

Fjármögnun

Þeir bændur sem hafa farið út í ferðaþjónusturekstur hafa margir breytt búhætti. Sumir hafa selt kvóta t.d mjólkurkvóta, fjárkvóta eða annað. Nokkuð er um að bændur hafi sótt um styrki til að fjármagna breytingar á bæjunum. Þessir styrkir hafa verið sóttir í ýmsa opinbera sjóði t.d Ferðamálaráð, framleiðnisjóð landbúnaðarins eða til Byggðarstofnunar.

 
Bæklingur og vefsíður

Ferðaþjónusta bænda gefur út bæklinginn DISCOVER THE REAL ICELAND.  Önnur kynningarstarfsemi sem fer fram eru kaupstefnur og ferðasýningar bæði hérlendis og erlendis. Vefsíða Ferðaþjónustu bænda er www.heyiceland.is, þar sem hægt er að finna viðmót á ensku og íslensku.