Gistihúsið - Lake Hotel Egilsstadir komið í Vakann
03.11.2017
| Lella Erludóttir
Gistihúsið - Lake Hotel Egilsstadir á sér langa sögu sem hvílir á gömlum merg íslensku bændamenningarinnar. Hótelið mætir ströngustu nútímakröfum um gæði, glæsileik og aðbúnað um leið og það varðveitir uppruna sinn sem nær aftur til ársins 1903 og gefur hótelinu einstakan og hlýlegan blæ. Á hótelinu má finna glæsilega heilsulind og veitingastað þar sem unnið er með íslenskt hráefni, gjarnan lífrænt úr nærsveitum.
Að rekstrinum standa hjónin Gunnlaugur Jónasson og Hulda E. Daníelsdóttir, en þau segjast alltaf hafa lagt mikla áherslu á að veita áreiðanlega, faglega, trausta og góða þjónustu og að þau hafi haft það sem markmið að auka fagmennsku og efla gæði og öryggi á vinnustaðnum. Þau segjast hafa fulla trú á því að þær verkreglur sem hafa skapast við inngöngu í Vakann muni verða þeim gott stjórntæki verðandi innri rekstur, öryggismál og þjónustu við gesti, starfsfólk og samstarfsaðila.
Hey Iceland óskar Gistihúsinu - Lake Hotel Edilsstadir innilega til hamingju með þennan áfanga. Hótelið er tíundi gististaðurinn innan Hey Iceland sem gengur til liðs við Vakann, en markmið hans er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi. Það er yfirlýst markmið Félags ferðaþjónustubænda að allir félagar gangi til liðs við Vakann á æstu misserum og að við verðum öll samstífa inn í framtíðina með ábyrga ferðaþjónustu að leiðarljósi.
Skoða þá 10 staði innan Hey Iceland sem eru komnir í Vakann
Nánar um Vakann