Upplifunardagur: Gullni hringurinn



Upplifunardagur: Gullni hringurinn

15.06.2020 | Hugrún Hannesdóttir

Í sumar keppast Íslendingar við að ferðast innanlands, upplifa nýja hluti og skapa einstakar minningar með sínum nánustu. Maður þarf alls ekki að fara langt til að komast í snertingu við stórbrotna náttúru og ógleymanleg ævintýri.

Okkar eigin Hugrún Hannesdóttir fagnaði merkum tímamótum á dögunum og ákvað að fagna þeim með upplifunardegi á Íslandi. Hún ákvað því að njóta Gullna hringsins á nýjan hátt og hér deilir hún ferðasögunni með okkur. Hugrún er deildarstjóri Bændaferða, sem er annað vörumerki Ferðaþjónustu bænda hf. Við gefum Hugrúnu orðið.

Fyrir utan Hótel Geysi
Dásamlegur dagur bíður

Upplifunardagur á Íslandi var yfirskrift dagsins. Veðurspáin var ótrúlega góð og því bókuðum við okkur í snorkl í Silfru á Þingvöllum um morguninn, enda alveg einstakt tækifæri núna til að prófa afþreyingu af þessu tagi. Fullt af tilboðum í gangi.
Þrátt fyrir að hafa talið að við leggðum tímanlega af stað, mættum við of seint á bílastæðið við Silfru. Það borgar sig því að gera ráð fyrir klukkutíma frá Reykjavík miðað við umferð. Ekki ský á himni. Brjáluð blíða.

Snorklað í Silfru

Chris hjá dive.is tók á móti okkur og við vorum 5 Íslendingar búin að bóka snorkl í Silfru. Mættum í föðurlandinu sem greinilega þykir eðlilegt og með hlýja sokka. Geymdum öll verðmæti í bílnum, sem kom sér vel. Svo fór leiðsögumaðurinn yfir þetta allt saman með okkur, sýndi leiðina á korti og fór yfir praktísk atriði.

Leiðsögumaður við Silfru
Leiðsögumaður undirbýr okkur fyrir snorklið í Silfru

Svo hófst rúllupylsukeppnin að koma sér í blessaðan blautgallann. Sennilega var þessi hluti ferðarinnar mesta puðið, því það er ekkert grín að troða sér í svona galla. Chris þurfti meira að segja að hjálpa okkur eins og litlu börnunum, en allt hófst þetta að lokum. Mörgæsaflokkurinn hélt þá kjagandi af stað í áttina að staðnum þar sem snorklið sjálft átti að hefjast. Ekki beint þægilegt að vera í þessu dressi, en hver lætur sig ekki hafa það fyrir svona upplifun. Ég bara spyr?

Snorklað í Silfru
Snorklað milli heimsálfa

Komin með blöðkurnar á, gleraugun upp og búið að fara yfir hvernig öndunin ætti að virka var nú kjagað á hælunum niður tröppurnar sem lágu ofan í gjána. Ég var bara ekki nægjanlega vel undir þetta búin. Var jú búin að sjá myndir, en þegar að ég setti andlitið í fyrsta skipti ofan í ískalt vatnið vaknaði óvænt lofthræðslan, því gjáin var svo djúp. Glerið í gleraununum var alveg eins og nýtt og vatnið fáránlega tært. Nú var ekkert annað að gera en draga andann djúpt (í gegnum munninn jú, því við áttum að gleyma á meðan á þessu stæði að við værum yfir höfuð með nef) og láta sig líða ofan í vatnið.

Snorklað milli heimsálfa
Vatnið kalt og fegurðin ólýsanleg

Til að gera langa sögu stutta þá var þetta enn magnaðra en ég bjóst við. Þvílík fegurð.
Þarna liðum við eftir gjánni og nutum hverrar mínútu. Ég þurfi lítið að hreyfa mig, bara rétt hreyfa öklana hægt til að líða áfram í vatninu. Eftir fyrstu augnablikin leið lofthræðslan algerlega hjá og ég naut þess í botn að skoða þetta einstaka landslag. Varirnar dofnuðu samt nánast strax, enda vatnið ískalt. Mér varð svolítið kalt á höndum en ekkert samt sem ég leið fyrir.

Gróðurinn ofan í gjánni kom líka á óvart, en leiðsögumaðurinn sagði okkur eftir á að ef snorkað er á veturna sé auðvitað enginn gróður svo í rauninni er þetta besti tími ársins, þó ferðirnar séu í boði allt árið.

Snorklað á Þingvöllum
Tíminn og vatnið

Ég gerði mér ekki alveg ljóst hve langan tíma við vorum ofan í vatninu, tíminn hvarf og upplifunin tók einhvern veginn yfir. Þegar upp var komið gerði ég mér fyrst grein fyrir hvað mér var í rauninni orðið kalt á höndum og í kringum varirnar. Leið eiginlega eins og ég hefði fengið stóran skammt af bótoxi í varirnar (án þess reyndar að hafa prófað bótox), en veðrið var svo gott að það hlýnaði fljótlega. Ekki verra að fá heitt kakó og kex í lokin.

Almannagjá og sjálfir þingvellirnir

Eftir snorklið var haldið á útsýnispallinn ofan við Almannagjá, enda varla annað hægt en að njóta útsýnisins í svona veðri. Allt lokað nema salernin, en við vissum það svo sem fyrir út frá upplýsingunum á vefsíðu Þjóðgarðsins. Þingvellir skörtuðu sínu fegursta fyrir okkur þennan bjarta og fallega dag og líkt og alltaf var sagan næstum áþreifanleg á þessum merka stað.

Þingvellir á sólríkum sumardegi
Horft yfir Almannagjá á Þingvöllum

Heimsókn á sveitabæ

Næsti áfangastaður upplifunardagsins var bærinn Efstidalur II, milli Laugarvatns og Geysis. Við komuna þangað tók dýrindis fjósalyktin á móti okkur, enda um kaffihús tengt fjósinu að ræða. Margar tegundir af heimagerðum ís á boðstólnum og hægt að horfa úr kaffihúsinu á kýrnar og kálfana. Ákváðum að dagurinn væri svo skemmtilega flippaður að það væri ekkert að því að byrja á eftirréttinum og keyptum okkar ís. Svo var rölt um til að skoða útsýnið yfir í fjósið og ekki síst á kálfana. Settumst svo út í blíðuna og nutum lífsins.

Í Efstadal er gisting og veitingastaður
Efstidalur II býður upp á gistingu, veitingar og heimatilbúinn ís

Hótel Geysir og hádegisverður

Áfram haldið að Geysi í Haukadal, þar sem til stóð að snæða hádegisverð á Hótel Geysi. Þegar að þangað kom vakti það aftur athygli mína hve fáir ferðamenn voru á ferli. Við vorum nánast eins og Palli var einn í heiminum. Kíktum í móttökuna á þessu splunkunýja hóteli og komumst þá að því að veitingastaðurinn opnaði kl. 17:00 fyrir kvöldverð, en að við ættum að fara yfir í Geysir Glíma veitingastaðinn til að borða hádegisverð.

Hótel Geysir
Hótel Geysir er glænýtt og glæsilegt hótel

Geysir og hinn mikli Strokkur

Eftir „fisk og franskar“ gengum við upp á hverasvæðið sem er í góðu ástandi miðað við síðustu ár, en hér á samt sem áður eftir að taka til hendinni í uppbyggingu og vernd. Nutum þess að sjá Strokk gjósa, gengum að sjálfum Geysi og að Blesa. Þarna voru líka fáir á ferli. Skrýtið til þess að hugsa að okkar Geysir skuli hafa gefið öllum goshverum í heiminu heiti sitt á ensku og vel þess virði að lesa aðeins um hverasvæðið. Jarðfræðin er svo heillandi.

Strokkur gýs
Það er alltaf jafn skemmtilegt að sjá Strokk gjósa

Hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að henda í helgarferð á Hótel Geysi og ganga á Bjarnarfellið, sem er stóra fjallið, 727 m, sem blasir við frá Geysissvæðinu. Hægt er að hlaða niður GPS ferli sem má treysta með því að smella hér og hefst gönguleiðin þá í Helludal. Rétt rúmlega 600 m hækkun og 6,5 km.

Strokkur býr sig undir að blása
Strokkur gýs á 8-10 mínútna fresti

Gullfoss og Bergþór í Bláfelli

Gullfoss var næstur á dagskrá og á leiðinni þangan leitar hugur minn alltaf að sögunni um Bergþór í Bláfelli. Í rauninni ætti enginn Íslendingur að keyra þarna um án þess að lesa þá sögu og það er meira að segja hægt að taka smá auka krók í Haukadalsskóg og skoða þar hlut úr sögunni (fyrir utan að ef nesti er með í för er tilvalið að snæða nesti í skóginum og fara í ævintýraferð með krakka, en það þyrfti að vera hluti af annarri frásögn).

Gullfoss í allri sinni dýrðVarla nokkur sála sjáanleg við Gullfoss

Við Gullfoss sló það okkur enn og aftur hve fáir voru á ferli. Svona er almennt ekki hægt að upplifa þessa staði á þennan hátt. Gengum alveg niður að brún og mættum engum á leiðinni, fyrr en við vorum á leið aftur í bílana. Þjóðin á Sigríði í Brattholti alveg klárlega mikið að þakka að ekki varð af virkjunarframkvæmdum tengdum Gullfossi (hægt að lesa um þá sögu í Gestastofunni við Gullfoss). Það má jafnvel velta fyrir sér hvort Sigríður hafi verið einn fyrsti náttúruverndarsinni landsins?

Ætlunin var að ná einnig heimsókn í Friðheima en það var svolítið óraunhæft vegna tímaskorts og verður því að bíða næstu ferðar. Eftir Gullfoss var því haldið í bæinn og við rétt náðum að vera komnar heim fyrir kl. 18:00.

Praktísk atriði sem gott er að hafa í huga:

• Ef snorklið er bókað kl. 9:30 er mæting kl. 9:15. Nauðsynlegt að leggja af stað úr bænum klukkutíma áður.
• Hafa símann fullhlaðinn (fyrir myndatökur)
• Þægilegast að mæta hreinlega á föðurlandinu með hlýja sokka í snorklið. Geyma verðmæti í bílnum.
• Muna að vera með aukaföt í bílnum (ef þú blotnar í snorklinu).
• Við vorum með smurðar flatkökur í bílnum og vatn. Gott að fá sér smá bita eftir snorklið.
• Þægilegast að vera í strigaskóm
• Klæða sig eftir veðri fyrir ferðina almennt. Það kom sér vel fyrir okkur að vera með flíspeysu.
• Ef bongóblíða, ekki gleyma léttum bol/stuttermabol, sólarvörn og derhúfu.

Takk Hugrún fyrir að deila þessari skemmtilegu ferðasögu með okkur.

Ferðaráðgjafar Hey Íslands eru sérfræðingar í að skipuleggja lengri og styttri ferðir um landið. Þú getur skoðað sveitagistingu og afþreyingu um allt land á hey.is

í nágrenni