Á ferðalagi um landið kynnumst við einstökum náttúruperlum og uppgötvum að það er endalaust hægt að finna nýja staði til að heimsækja. Hver landshluti hefur svo margar perlur að geyma og manni verður ljóst að á þennan stað verður maður að koma aftur og dvelja lengur. Njóta en ekki þjóta kemur upp í hugann og maður sér fyrir sér áhyggjulausar kýr og hesta úti á túni og kindur með lömbin sín út um allar jarðir. Þessi fallegustu húsdýr í heimi eru okkur eflaust ágætis fyrirmyndir þegar kemur að núvitund, þ.e. að vera til staðar hér og nú.
Heilsað upp á hrútinn á bænum
Í þessum pistli ætlum við að ferðast um landið okkar góða og staldra við á sveitabæjum þar sem hestarnir, kindurnar, kýrnar og allar hinar skepnurnar gegna mikilvægu hlutverki samhliða ferðaþjónustunni. Algengast er að ferðaþjónustubændur bjóði upp á gistingu þar sem dvalargestir upplifa sveitina eins og hún er akkúrat þá stundina; sumar, vetur, vor eða haust. Víða um land er hægt að skella sér á hestbak og á nokkrum stöðum hafa bændur komið upp húsdýragerði og bjóða gestum og gangandi velkomna í heimsókn á ákv. tíma dags. Vert er að hafa í huga að leiðarvísirinn hér fyrir neðan miðast við sumartímann.
Hvað er betra en lambaknús?
VESTURLAND
Það hafa ófá leikskólabörn heimsótt Bjarteyjarsand í Hvalfirði, heilsað upp á dýrin á bænum, fengið lambaknús og rölt niður í fjöru. Áhersla er lögð á matarupplifun en á bænum er veitingastaðurinn Hlaðan og sveitaverslun. Brennistaðir í Flókadal er einn af þeim bæjum sem hafa hvað lengst boðið ferðamönnum upp á bændagistingu hér á landi. Boðið er upp á gistingu samhliða búskapnum og þeir sem gista geta fengið fræðslu um lífið í sveitinni fyrr og nú. Í Hvítársíðu er Geitfjársetrið á Háafelli þar sem hinar ljúfu og mannelsku geitur veita gestum hlýjar móttökur. Sveitaverslun er á staðnum þar sem hægt er að versla vörur beint frá býli og fyrir þá sem elska rósir, þá er að finna um 180 tegundir rósa á Háafelli.
Í sveitasælunni á Snorrastöðum sem er í göngufæri frá Eldborg á Snæfellsnesi er boðið upp á gistingu í sumarhúsum auk þess sem tjaldsvæði er á staðnum. Þeir sem gista á Snorrastöðum gefst kostur á að heimsækja dýrin á bænum í samráði og fylgd bóndans.
Á Hestalandi, Staðarhúsum, er boðið upp á sveitaheimsókn þar sem fræðst er um íslenska hestinn, tækifæri gefst til að klappa honum auk þess sem hægt er að fara í stutta reiðtúra. Reiðhöll er á Hestalandi og því er hægt að setja upp sýningu innanhúss. Á sveitahótelinu Hraunsnefi í Norðurárdal er hægt að gera vel við sig í veitingum, gistingu og njóta sveitasælunnar í heita pottinum. Gestgjafarnir leggja mikla áherslu á sjálfbærni í landbúnaði og á matseðlinum þar má finna rétti með afurðum beint frá býli.
Þegar leiðin liggur um Dalina, þá er tilvalið að koma við á Rjómabúinu Erpsstöðum, fá sér ís og skoða dýrin á bænum. Þá hefur fjölskyldan á bænum Hólar norðan við Búðardal komið upp húsdýragarði þar sem finna má hinar ýmsu dýrategundir.
Þessi stúlka kanna að slaka á og njóta með kúnum í fjósinu
VESTFIRÐIR
Í göngufæri við bændagistinguna að Kirkjubóli á Ströndum er að finna Sauðfjársetur Íslands á Sævangi þar sem íslensku sauðkindinni er gerð skil á lifandi og skemmtilegan hátt í sýningunni Sauðfé í sögu þjóðar. Á sumrin er einnig rekinn Náttúrubarnaskóli og svo eru heimalingarnir aldrei langt undan. Á sama stað er kaffistofan Kaffi Kind og fyrir þá sem vilja skilja meira eftir heima í héraði geta keypt minjagripi úr íslensku handverki.
Heydalur í Mjóafirði er sannkallaður ævintýradalur. Þar er hægt að fara í stutta reiðtúra og í veitingasalnum tekur á móti manni talandi páfagaukur. Eftir skemmtilegan reiðtúr eða kayjakferð er hægt að skella sér í heita laug eða sundlaugina sem er staðsett inni í gróðurhúsi. Áhersla er lögð á að nýta gott hráefni úr heimabyggð en þess má geta að mikil grænmetisrækt er stunduð í Heydal.
Á móts við Þingeyri í Dýrafirði er bærinn Gemlufall en þar er boðið upp á gistingu í sumarhúsi. Á bænum eru kýr og kindur og þeir sem gista hafa tækifæri til að spjalla við gestgjafana um sveitastörfin.
Áhyggjulaus á vappi í hlaðinu
NORÐURLAND
Á Norðurlandi vestra er víða að finna bændagistingu þar sem hefðbundinn búskapur er stundaður samhliða ferðaþjónustunni. Eftir því sem tækifæri gefst til geta bændur frætt dvalargesti um búskapinn. Má hér m.a. nefna Brekkulæk, Neðra-Vatnshorn, Hof í Vatnsdal og Stekkjardal v/Svínavatn í Húnaþingi og í Skagafirði má t.d nefna Sölvanes, Keldudal í Hegranesi og Brúnastaði í Fljótum. Þeir sem vilja skella sér á hestbak geta farið í stuttar hestaferðir frá Stóru-Ásgeirsá í Húnaþingi og Syðra Skörðugili í Skagafirði. Fyrir þá sem láta sig dreyma um að gerast bóndi, geta látið draum sinn rætast í einn dag með bóndanum á Stóru-Ásgeirsá. Það fer síðan eftir árstíð og verkefnum hvers dags hvað dagurinn mun bera í skauti sér. Hjá nágrönnunum í Dæli í Víðidal er boðið upp á hestasýningar fyrir hópa.
Aðrir sem hafa áhuga á lífinu í sveitinni en vilja ekki endilega heilsa upp á dýrin eða fara í útihúsin geta heimsótt sveitaverslunina á Hólabaki í Húnaþingi og fengið þar kynningu á lífinu í sveitinni og verslað fallegar vefnaðar- og gjafavörur (opið eftir samkomulagi). Þar er m.a. að finna vörumerkið Lagður sem er heiti á þingeyskum fjallmyndarlegum hrúti sem í dag er orðinn þekkt fyrirsæta á púðaveri.
Í Eyjafirði er hægt að skella sér í stutta hestaferð í Skjaldarvík og slaka síðan á í stórum heitum potti eftir reiðtúrinn, eða kíkja inn í gistiheimilið þar sem hönnun og hugmyndaauðgi húsfreyjunnar fær að njóta sín. Þá er gaman að taka sveitahringinn í Eyjafjarðarsveit, heilsa upp á kálfana á leikskólanum á Kaffi kú og gæða sér á gómsætri vöfflu og mjólkurhristingi. Þeir sem eru veikir fyrir ís ættu endilega að koma við í Holtseli og gæða sér á ekta heimagerðum rjómaís. Á bakaleiðinni má skella sér í sund á Hrafnagili eða kíkja í jólahúsið og tékka á jólakettinum.
Þegar haldið er frá Akureyri áleiðis til Mývatns er húsdýragarðurinn Daladýrð skammt frá Vaðlaheiðagöngum austan megin. Þar er hægt að hitta allskonar dýr, hoppa í heyinu og fá sér hressingu. Svo taka við fjölbreyttir gististaðir þar sem búskapur er stundaður samhliða ferðaþjónustunni og má þar nefna Gistiheimilið Rjúpa, sveitahótelið á Fljótsbakka, en gistingin þar er í gömlu uppgerðu fjósi, Klambrasel/Langavatn, Öndólfsstaði og Skútustaði við Mývatn þar sem Skútaísinn er framleiddur og seldur í lítilli ísbúð. Í Vogafjósi við Mývatn er huggulegur veitingastaður þar sem hægt að horfa yfir í fjósið og fylgjast með lífinu í fjósinu eða horfa í hina áttina þar sem kýrnar njóta hreina þingeyska loftsins útifyrir. Á matseðlinum er m.a. að finna réttinn sveitasmakk sem á vel við að prófa, enda mikill metnaður þar á bæ við að nýta afurðir beint frá býli eins og víðar.
Margir bjóða upp á reiðtúra og hestaferðir um sveitina, hvort sem er fyrir byrjendur eða þaulvana knapa
Austurland
Óbyggðirnar og sveitalífið taka á móti okkur á bæði Fjalladýrð á Möðrudal og á Óbyggðasetrinu í Fljótsdal. Þessir staðir færa okkur inn í heim gamla tímans; umgjörðin, andrúmsloftið og bakkelsið. Á meðan bændur á Fjalladýrð halda uppi heiðri íslenskra torfbæja, þá færir Óbyggðasetrið okkur lifandi sýning um ævintýri óbyggðanna. Á Óbyggðasetrinu er hægt að fara í styttri og lengri hestaferðir og gisting er í boði á báðum stöðum.
Hjá bændunum á Skorrahestum á Norðfirði er boðið upp á gistingu og reiðtúra auk þess sem heimalingarnir eru ekki langt undan. Á Borg í Njarðvík, er bændagisting og þar gefst gestum kostur á að kynnast dýrunum og lífi bænda í leik og starfi. Þaðan er tilvalið að gera sér ferð í Bakkagerði og kíkja á lundann í Hafnarhólma. Skammt frá Egilsstöðum eru Útnyrðingsstaðir og Finnsstaðir sem einnig bjóða upp á hestaferðir en á hinum síðarnefnda er hægt að heilsa upp á fleiri dýr sem eru á bænum. Svo þegar vindar eru hagstæðir þá er fjósalyktin ekki langt undan í þéttbýlinu á Egilsstöðum því að við Gistihúsið Egilsstöðum Lake Hotel og kaffihúsið Fjóshornið er Egilsstaðabúið en á kaffihúsinu er hægt að kaupa vörur beint frá búinu.
Eftir skemmtilega heimsókn til dýranna er oft gott að fá að setjast niður og fá kaffi og kruðerí
Suðurland
Á milli Hornafjarðar og Mýrdals þar sem athyglin dregst ósjálfrátt að jöklum og fossum er líka að finna fjölbreytta búskap samhliða vaxandi ferðaþjónustu. Í Árnanesi í Nesjum er hægt að skella sér á hestbak og á Brunnhóli á Mýrum er hægt að gæða sér á ís beint frá býli og á sama tíma njóta jöklasýnar og horfa á kýrnar á beit úti í haga. Jöklaísinn á Brunnhóli ber því nafn með rentu. Á sömu slóðum má finna fleiri bændagistingar af öllum stærðum og gerðum eins og á Nýpugörðum, Hólmi, Skálafelli, Smyrlabjörgum og Gerði í Suðursveit.
Rétt vestan við Kirkjubæjarklaustur er bændagistingin að Hunkubökkum á Síðu og í Mýrdalnum eru það bæirnir Giljur, Mið-Hvoll og Sólheimahjáleiga, dæmigerður íslenskur sveitabær. Á Mið-Hvoli er rekin hestaleiga og er tilvalið að bregða sér í reiðtúr í svörtum sandi í fjörunni vestur af Dyrhólaey.
Áleiðis inn í Þórsmörk er Stóra Mörk en samhliða búskapnum er boðið upp á bændagistingu. Í Fljótshlíðinni er búskapur stundaður á Hótel Fljótshlíð Smáratúni, sem er umhverfisvottaður gististaður og þar er mikil áhersla lögð á hráefni beint frá býli, mat úr héraði og lífræn matvæli. Hænurnar og fleiri húsdýr eru á vappi á Hótel Læk, Hróarslæk á Rangárvöllum. Á Hestheimum er boðið upp á reiðtúra og hestanámskeið. Á Hestakránni á Skeiðum eru hestarnar líka í aðalhlutverki og þar eru einnig hestaferðir í boði.
Dýragarðurinn í Slakka er staður sem margar fjölskyldur þekkja. Þarna kennir ýmissa grasa í dýralífinu og er bæði hægt að knúsa litlu krúttlegu dýrin og drekka í sig fróðleik um margar dýrategundir, sumar sem maður vissi ekki einu sinni að væru til.
Í Friðheimum í Reykholti er hægt að gæða sér á gómsætri og ferskri tómatsúpu í gróðurhúsi en einnig er hægt að panta heimsókn í hesthúsin þar sem hestarnir taka vel á móti gestum. Fyrir hópa er boðið upp á hestasýninguna Stefnumót við íslenska hestinn, en fyrir þá sem ekki vita þá er íslenski hesturinn eitt merkasta hestakyn heims. Í Efstadal, mitt á milli Laugarvatns og Geysis er hægt að fylgjast með lífinu í fjósinu, bæði úr kaffihúsinu og veitingasalnum sem er á efri hæðinni. Hestaleigan er opin alla daga og fyrir sprellibörnin er ærslabelgur úti á túni. Á bænum er framleiddur ís sem nýtur vinsælla hjá öllum aldurshópum en á staðnum er einnig sveitaverslun þar sem hægt er að kaupa bæði mjólkur- og kjötvörur beint frá býli.
Í Vatnsholti við Villingaholtsvatn er forvitnilegt að sjá hvaða dýr hafa þar hreiðrar um sig, en á bænum er einnig hægt að skellar sér í fótboltaminigolf, gleyma sér á leiksvæðinu eða fá sér hressingu á veitingastaðnum.
Hefðbundinn búskapur er á Lambastöðum skammt austan við Selfoss þar sem næturgestir hafa tækifæri til að spjalla við bændur um lífið í sveitinni og málefni líðandi stundar.
Sólhestar og Eldhestar í Ölfusi bjóða upp á úrval reiðtúra, bæði styttri og lengri ferðir. Upp til fjalla eða meðfram ströndinni, óreyndir og reyndir knapar. Allir eru velkomnir að njóta gæðastundar með íslenska hestinum.
Höfuðborgarsvæðið
Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardalnum er að finna öll helstu íslensku húsdýrin en einnig önnur framandi dýr. Þarna er hægt að koma allan ársins hring, heilsa upp á dýrin og fræðast um þau.
Gott að muna:
✔️ Tökum íslensku húsdýrin til fyrirmyndar, slökum á, borðum og njótum þess að vera úti í náttúrunni.
✔️ Njóta en ekki þjóta. Dveljum lengur á hverjum stað, þannig kynnumst við staðnum betur og þeim sem þar búa, bæði skepnum og mannfólkinu.
✔️ Virðum og fylgjum þeim umgengnisreglum sem bændur hafa komið upp.
✔️ Gætum fyllsta hreinlætis í kringum dýrin. Þvoum hendur og sprittum áður en matar er neytt eftir að hafa umgengist dýr og pössum vel upp á börnin okkar og látum þau þvo sér vel eftir snertingu við dýr.
✔️ Að umgangast dýr getur haft jákvæð áhrif á heilsu og líðan okkar. Verum dugleg að nýta okkur þau tækifæri sem gefast til að fara upp í sveit og njóta líðandi stundar.
Á vefsíðu Hey Iceland, hey.is er úrval af hestaferðum í boði en þar er einnig að finna skipulagðar sveitaheimsóknir. Samhliða búskapnum bjóða margir bændur upp á gistingu, gistimöguleikarnir eru fjölbreyttir þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.