Sævar stígur til hliðar og Berglind tekur við



Sævar stígur til hliðar og Berglind tekur við

12.05.2023

Ferðaþjónusta bænda hf. stendur frammi fyrir breytingum þar sem Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins undanfarin 25 ár, hefur ákveðið að stíga til hliðar og mun í framhaldinu taka við stjórnarformennsku félagsins. Þar mun hann leiða fyrirtækið til áframhaldandi vaxtar til samræmis við stefnu þess. Sævar tekur við stjórnarformennsku af Gunnlaugi Jónassyni sem verið hefur formaður undanfarin fimm ár.

Við starfi framkvæmdastjóra tekur Elín Berglind Viktorsdóttir en hún hefur starfað fyrir Ferðaþjónustu bænda og Félag ferðaþjónustubænda í 21 ár, lengst af sem gæðastjóri. Berglind er kennari að mennt, með diplóma í markaðsfræði ferðamála frá Merkantile Hoyskole í Osló og meistaragráðu í umhverfisfræðum frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún nýlokið PMD stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík.

Ferðaþjónusta bænda hf. var stofnuð af íslenskum ferðaþjónustubændum árið 1991 en félagið á þó forsögu til ársins 1965 þegar erlendum ferðamönnum var fyrst boðið að dvelja á íslenskum sveitaheimilum gegn gjaldi.

Sævar hefur leitt fyrirtækið eins og áður segir í aldarfjórðung með traustu teymi stjórnenda við aðstæður þar sem íslensk ferðaþjónusta hefur slitið barnsskónum og upplifað áskoranir á borð við efnahagshrun, eldgos og heimsfaraldur. Vöxtur félagsins hefur verið góður undanfarin ár þar sem áhersla hefur verið lögð á ábyrga ferðaþjónustu og stafræna framþróun. Starfsmenn í dag eru 28 talsins og hefur fyrirtækinu tekist vel að halda mannauði og þekkingu í fyrirtækinu.

Undir merkinu Hey Iceland sérhæfir félagið sig í ferðalögum á landsbyggðinni með sölu á fjölbreyttri gistingu og afþreyingu um allt land. Undir merki Bændaferða býður félagið upp á innihaldsríkar pakkaferðir með íslenskri fararstjórn um allan heim.

„Mér líður mjög vel í dag með það að afhenda félagið henni Berglindi sem ég hef starfað farsællega með í 21 ár á sama tíma og ég tek að mér nýtt hlutverk í þágu fyrirtækisins sem stjórnarformaður. Mín verkefni verða nú að leiða stefnumótunarvinnu til lykta, leiða verkefni í tengslum við nýja markaði og leita vaxtar- og hagræðingartækifæra í takt við stefnu eigenda fyrirtækisins. Hér eru einstakir vinnufélagar sem hafa alltaf þétt raðirnar þegar á reynir og það hefur skilað okkur þrautseigu fyrirtæki sem er mjög framarlega í íslenskri ferðaþjónustu og nýtur mikils trausts viðskiptavina. Um leið og ég þakka stjórninni traustið og fráfarandi stjórnarformanni samstarfið í mínu fyrra hlutverki vil ég leggja sérstaka áherslu á að velgengni fyrirtækisins er okkar samhenta starfsfólki að þakka. Ég vil því þakka vinnufélögum mínum fyrir farsælt samstarf á liðnum árum,“ segir Sævar Skaptason, stjórnarformaður Ferðaþjónustu bænda hf.

„Það er ef til vill ekki oft sem nýr framkvæmdastjóri í fyrirtæki nýtur áframhaldandi handleiðslu fyrrverandi framkvæmdastjóra í nýju hlutverki stjórnarformanns en ég held að þetta sé afskaplega skynsamleg nálgun og í takti við okkar stjórnarhætti. Með Sævar sem stjórnarformann er samfella við stjórnun fyrirtækisins tryggð og að okkar mati farsæl leið til að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem standa fyrir dyrum í okkar sókn. Fyrirtækið gengur vel og er í mikilli uppbyggingu og saman ætlum við okkur að finna tækifæri til frekari vaxtar. Ég hlakka mikið til að takast á við þessa áskorun,“ segir Berglind, nýr framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf.

í nágrenni