Gistihúsið við höfnina / Harbour Inn Guesthouse



Gistihúsið við höfnina / Harbour Inn Guesthouse

Vinalegt og snyrtilegt fjölskyldurekið gistihús á Bíldudal, sjávarþorpi með sínum sérstöku töfrum á sunnanverðum Vestfjörðum. Gisting í  tveimur stúdíó íbúðum, 11 tveggja manna herbergjum og 1 eins manns herbergi, ýmist með sameiginlegu eða sérbaði. Gistihúsið er við höfnina, í hjarta byggðarinnar, og við hliðina er veitingastaðurinn Vegamót. Tilvalinn dvalarstaður fyrir þá sem hafa hug á að njóta stórbrotinnar náttúru á sunnanverðum Vest­fjörðum. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Sér baðherbergi
  • Íbúð
  • Wi-Fi
  • Eldunaraðstaða
  • Golfvöllur í nágrenni

Í nágrenni

  • Góðar gönguleiðir
  • Golfvöllur 2 km
  • Tálknafjörður 19 km
  • Selárdalur 25 km
  • Patreksfjörður 30 km
  • Flókalundur 45 km 
  • Dynjandi 60 km
  • Hrafnseyri 80 km
  • Látrabjarg 87 km
  • Þingeyri 98 km
  • Ísafjörður 145 km

Gistiaðstaða

Gisting í 2 x 2m herbergjum með sameiginlegu baði. 5 x 2m herbergjum með sameiginlegu baði en handlaug inni á herbergi. 1 x 1m herbergi með sameiginlegu baði en handlaug inni á herbergi. Einnig gisting með sérbaði í 4 x 2m herbergjum og 2 x stúdíó íbúðum, önnur 1-2 manna og hin 5-7 manna.. Lítil setustofa í gestamóttöku og gestum er einnig velkomið að nýta morgunverðarsal utan hefðbundins morgunverðartíma. 

Máltíðir / Þjónusta

Morgunverður er innifalinn í verði fyrir gistingu. Í boði er aðgengi að eldhúsaðstöðu með hellu og ísskáp. Veitingastaðurinn Vegamót, við hliðina á gistiheimilinu, er opinn allt árið.

Afþreying

Áhugaverðar gönguleiðir eru á svæðinu. Á Bíldudal er 9 holu golfvöllur. Þar eru einnig safn Jóns Kr. Ólafssonar um sögu íslenskrar dægurtónlistar og hið magnaða Skrímslasafn. Bátsferðir um Arnarfjörð með Beffa Tours. Heit, uppsteypt náttúrulaug, opin allan sólarhringinn, er í Reykjafirði við sunnanverðan Arnarfjörð (19 km). Góð útisundlaug á Tálknafirði (19 km).

Ketildalir, Selárdalur og Gísli í Uppsölum

Frá Bíldudal er tilvalið að skreppa í skoðunarferðir um heillandi slóðir við Arnarfjörð. Eftirminnilegt er að aka út með firðinum sunnanverðum, um svonefnda Ketildali, og í Selárdal sem er ystur Ketildala. Í Selárdal má skoða myndastyttur, íbúðarhús og kirkju Samúels Jónssonar (1884-1969) sem bjó í Braut­arholti, hjáleigu frá Selárdal; það er staður sem á engan sinn líka. Einnig er tilvalið að ganga að eyðibýlinu Uppsölum og renna huganum til Gísla Gísla­sonar sem varð þjóðkunnur í Stiklum Ómars Ragnarssonar. 

Látrabjarg, minjasafnið á Hnjóti, Rauðisandur

Til Tálknafjarðar (19 km) er ekið yfir Hálfdán, fjallveginn suður af Bíldudal, og þaðan eru 10 km til Patreksfjarðar. Við sunnanverðan Patreksfjörð liggur leiðin út til Látrabjargs (57 km) sem er tröllsleg náttúrusmíð og öllum ógleymanlegt að stíga þar fram á brúnir. Á leiðinni út með firðinum er sjálfsagt að staldra við á Hnjóti í Örlygshöfn og skoða hið merkilega minjasafn Egils Ólafssonar, einstakt safn muna frá nágrannabyggðunum og muna sem tengjast atvinnusögu 20. aldar. Í bakaleiðinni frá Látrabjargi er tilvalið að aka yfir á Rauðasand. Ef tími er til ætti göngufólk að bregða sér út að Sjöundá.

Sumarfegurð í Suðurfjörðum, Dynjandi, Hrafnseyri

Til Þingeyrar eru tæpir 100 km frá Bíldudal. Þá er ekið að sumarlagi inn með svonefndum Suðurfjörðum við Arnarfjörð, um fallegar slóðir, víða kjarri vaxnar, þar sem má finna margar freistandi gönguleiðir, t.d. í Fossfirði og Trostansfirði. Ekið er um Dynjandisheiði og komið niður hjá einni mestu náttúruperlu Vestfjarða, fossinum Dynjanda. Á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar á norðurströnd Arnarfjarðar, er minjasafn um Jón og þar er áhugavert að skoða endurbyggðan burstabæinn á Hrafnseyri. Sjálfsagt er svo að ljúka þessari dagsferð frá Bíldudal með heimsókn til Þingeyrar.

Gestgjafi:  Friðbjörg Matthíasdóttir

 

í nágrenni