Gistiaðstaða
Í húsinu eru tvær íbúðir sem báðar henta vel fyrir 6 manns. Hægt er að leigja þær saman og er þá opnað á milli íbúða.
- Íbúð 1 (3 svefnherbergi): Stofa, eldhús, baðherbergi og 3 svefnherbergi; herbergi með hjónarúmi, herbergi með 2 stökum rúmum og herbergi með koju (ein og hálf breidd í neðri og ein breidd í efri koju).
- Íbúð 2 (2 svefnherbergi): Eldhús með setukrók, baðherbergi, stofa með tvíbreiðum svefnsófa og einbreiðu rúmi og 2 svefnherbergi; herbergi með 2 stökum rúmum og herbergi með koju (ein og hálf breidd í neðri og ein breidd í efri koju).
Góður pallur er við húsið með fallegu útsýni yfir Dýrafjörð.
Þjónusta
Á gistiheimilinu er eldunaraðstaða fyrir gesti í báðum íbúðum, gasgrill er á staðnum og hægt að fá lánað stórt tunnugrill fyrir stærri viðburði. Með gistingunni fylgir ekki morgunverður en hægt er að kaupa morgunmat, ef þess er óskað, á milli kl. 9:00-10:30 í húsi gestgjafa. Hægt að fá útbúna nestispakka. Léttar máltíðir í boði, heimatilbúnar súpur og nýbakað brauð (panta þarf með dags fyrirvara). Hægt er að kaupa helstu nauðsynjar í söluskálum hjá N1 á Þingeyri og Flateyri en stærri matvöruverslanir eru á Ísafirði.
Afþreying
Húsráðendur og gestgjafar búa á Gemlufalli, í húsi skammt frá gististaðnum. Þeir veita leiðbeiningar um helstu gönguleiðir í nágrenninu og það er mögulega hægt að fá leiðsögumann með í för gegn gjaldi (þarf dagsfyrirvara). Innisundlaugar eru á Þingeyri og Flateyri. Yfir sumartímann eru boði hestaferðir með leiðsögumanni frá kaffihúsinu Simbahöllinni á Þingeyri og þar er einnig reiðhjólaleiga. 9 holu golfvöllur í Meðaldal, rétt utan við Þingeyri.
Freistandi gönguleiðir, fuglalíf, sumarfegurð
Dýrafjörður er fríður og svipmikill og rómaður fyrir sumarfegurð. Þar er kjörið svæði til gönguferða, hvort sem hugurinn stefnir meðfram sjávarbökkum eða inn til fjalla. Í nágrenni Gemlufalls eru freistandi gönguleiðir og mikið fuglalíf í fjörunni; má líka stundum sjá seli á steinum. Sunnan fjarðarins opnast heillandi heimur fyrir fjallgöngufólk og þar rís Kaldbakur, hæsta fjall á Vestfjörðum. Út með firðinum að norðanverðu liggur ökuleiðin út að Núpi þar sem var héraðsskóli til ársins 1992. Á Núpi er elsti skrúðgarður á Íslandi, Skrúður, frá árinu 1909, sem er vel þess virði að heimsækja.
Önundarfjörður, Flateyri, Ísafjörður og Djúpið
Frá Gemlufalli liggur þjóðvegurinn til Önundarfjarðar um Gemlufallsheiði (283 m.y.s.) og til Flateyrar (22 km). Sumarfagurt er í Önundarfirði og margt áhugavert fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk. Þar er fuglalíf fjölskrúðugt og sandfjaran fram undan Holti er einstakur staður. Frá Önundarfirði er ekið um Vestfjarðagöng til Ísafjarðar (30 km frá Gemlufalli). Í göngunum eru vegamót og liggur þar leiðin í vestur til Suðureyrar við Súgandafjörð (37 km frá Gemlufalli). Á Ísafirði, stærsta þéttbýliskjarna á Vestfjörðum, er öll þjónusta í boði fyrir ferðamenn, verslanir, veitingastaðir, söfn og fjölskrúðugt menningalíf.
Haukadalur, Dynjandi, Rauðisandur, Látrabjarg
Frá Gemlufalli er tilvalið að bregða sér í öku- og skoðunarferðir suður á bóginn. Sunnan Dýrafjarðar má t.d. aka út með firðinum frá Þingeyri í Haukadal þar sem eru söguslóðir Gísla sögu Súrssonar. Þá er sjálfsagt að sumarlagi að bregða sér yfir Hrafnseyrarheiði (áætlað er að opna Dýrafjarðargöng haustið 2020), heimsækja Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, og skoða fossinn Dynjanda (59 km frá Gemlufalli). Í dagsferð frá Gemlufalli má svo aka „litla Vestfjarðahringinn“ um suðurfirðina og bregða sér þá jafnvel á Rauðasand eða út á Látrabjarg (180 km frá Gemlufalli).
Gestgjafar: Elsa María og Jón Skúlason