Gistiaðstaða
4x4 manna heilsársbústaðir með tveimur svefnherbergjum (annað með hjónarúmi og hitt með koju), baðherbergi, eldhúskrók og setustofu. Verönd með heitum potti við hvern bústað. Sjónvarp. Einnig sumarhús 100 metra frá fyrir 6 fullorðna og 4 börn en í því húsi eru 4 svefnherbergi.
Á Snorrastöðum er einnig tjaldsvæði með góðri salernisaðstöðum. Aðgangur að rafmagni.
Þjónusta
Næstu matsölu- og veitingastaðir í Ensku húsunum við Langá (30 km), í Borgarnesi (38 km) og í Langaholti á Snæfellsnesi (55 km). Ókeypis þráðlaust netsamband í sumarhúsunum.
Afþreying
Ábendingar um veiðileyfi í nágrenninu er hægt að nálgast hjá Snorrastöðum.
Skoðunarferð um sveitina hjá Snorrastöðum í fylgd og samráði við bónda þar sem hægt er m.a. að skoða dýrin.
Fjölbreyttar gönguleiðir í nágrenninu. Næstu golfvellir eru hjá Borgarnesi, Hamarsvöllur (38 km), vinsæll 18 holu völlur, og í Langaholti (55 km), skemmtilegur sandvöllur. Næsta þéttbýli með góðri sundlaug, verslunum, söfnum og ýmissi almennri þjónustu við ferðafólk: Borgarnes (38 km). Í Stykkishólmi (65 km), bæ á norðanverðu Snæfellsnesi, er einnig góð sundlaug, verslanir og margt í boði fyrir ferðafólk. Hvalaskoðunarferðir með Sæferðum frá Ólafsvík (70 km).
Eldborg, listaverk úr þunnum hraunskánum
Eldborg, friðlýst árið 1974, er að margra dómi formfegursti gígur á Íslandi. Eldborg er gjallgígur sem rís 60 metra yfir hraunið í kring. Gígurinn er sporöskjulaga, 200 m á lengd og 50 m á dýpt. Talið er að gosið hafi síðast úr Eldborg á fyrri hluta 10. aldar. Auðveldast er að ganga á Eldborg frá Snorrastöðumm 2,5 km.
Gerðuberg og Snæfellsjökull
Dagsferð út á Snæfellsnes er sjálfsagt að byrja með viðdvöl við Gerðuberg, óvenju reglulegan stuðlabergshamar (13 km). Ökuleiðin eftir sunnanverðu nesinu er skemmtileg og fram undan blasir við Snæfellsjökull, gæddur dularfullu seiðmagni. Sjálfsagt er að ætla sér mestan tíma til að njóta þess sem fyrir augu ber í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli (85 km) þar sem eru merktar gönguleiðir um ógleymanlegan ævintýraheim náttúrunnar.
Skoðunarferðir um Borgarfjörð – Stykkishólmur
Snorrastaðir liggja vel við til skoðunarferða hvort sem er í suður um Borgarfjarðarhérað (Deildartunguhver, Hraunfossar, Reykholt, Landnámssetrið í Borgarnesi) eða í norður yfir Snæfellsnes til Stykkishólms (65 km), fallegs bæjar við sunnanverðan Breiðafjörð. Þar eru áhugaverð söfn, t.d. Eldfjallasafnið, og í boði m.a. skoðunarsiglingar um Breiðafjörð.
Gestgjafar: Branddís og Kristján