Jaðar í Borgarfirði



Jaðar í Borgarfirði

Gisting fyrir fjóra með möguleika á aukaplássi á svefnsófa í snotru, litlu steinhúsi í fallegu umhverfi miðsvæðis í Borgarfjarðarhéraði á suðvestanverðu Íslandi. Bærinn stendur á lágu holti á flatlendi, er víðsýnt til allra átta og til blárra fjalla og silfurhvítra jökla upp af dölum Borgarfjarðar. Stutt að fara til þess að þræða frábærar gönguleiðir og sjá einstakar náttúruperlur. Margs konar afþreying í boði í héraðinu.

Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Bústaður
  • Wi-Fi
  • Eldunaraðstaða
  • Sjónvarp inni á herbergjum
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Norðurljósaþjónusta

Í nágrenni

  • Veitingarhús og Tröllagarðurinn hjá Fossatúni 4 km
  • Sundlaug 11 km
  • Deildartunguhver 14 km
  • Hvanneyri 16 km
  • Reykholt 18 km
  • Borgarnes 25 km
  • Hraunfossar 38 km
  • Surtshellir 56 km
  • Langjökull

Gistiaðstaða

2x2 manna svefnherbergi og svefnsófi í dagstofu. Hægt að fá barnarúm og barnastól án endurgjalds. Vel búið eldhús. Rúmgóð verönd með heitum potti og garðhúsgögnum þar sem er einstök upplifun að horfa á norðurljósin á heiðskírum vetrarkvöldum.

 
Þjónusta

Gestir annast allar máltíðir sjálfir. Næsti veitingastaður í Fossatúni (4 km); fjölbreyttir réttir af matseðli fyrir einstaklinga og hópa.
Á Jaðri er stundaður búskapur með hænsni og sauðfé og ylræktun í gróðurhúsum (tómatar, gúrkur og paprikur). Gestum er velkomið að skoða gróðurhúsin og kynnast því hvernig Íslendingar nýta jarðhita til ræktunar á hitakærum nytjaplöntum. Leiksvæði fyrir börn og húsdýr til sýnis. Ókeypis þráðlaust netsamband.

 
Afþreying

Tröllagarðurinn í Fossatúni (4 km), skemmtilegt leiksvæði þar sem fólk á öllum aldri getur leikið sér saman, farið í tröllagolf, tröllablak, tröllaparís og ótal margt annað. Hestaferðir fyrir unga og aldna á Ölvaldsstöðum, skammt frá Borgarnesi (21 km). Gönguleiðir. Geitasetrið á Háafelli í Hvítársíðu (26 km). 9 holu golfvöllur hjá Nesi í Reykholtsdal, skammt frá Reykholti (12 km), og 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur, skammt frá Borgarnesi. Næsta sundlaug á Kleppjárnsreykjum (10 km). Næsta þéttbýli með verslunum, veitinga- og matsölustöðum, sundlaug og ýmissi almennri þjónustu fyrir ferðamenn: Borgarnes (25 km).

 
Vatnsmesti hver í Evrópu og stærsti hraunhellir á Íslandi

Vatnsmesti hver í Evrópu, Deildartunguhver, er neðst í Reykholtsdal (11 km frá Jaðri). Þaðan má aka inn dalinn og yfir lágan háls, norðan dalsins, og síðan sem leið liggur að hinum nafnkunnu Hraunfossum (35 km), einstæðu listaverki náttúrunnar. Frá Hraunfossum eru 8 km að Húsafelli, vinsælli útivistarperlu þar sem eru yndislegar gönguleiðir, sundlaug, golfvöllur og þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn. Frá Húsafelli eru 12 km að Fljótstungu; þaðan eru í boði daglegar klukkustundar ferðir í stærsta hraunhelli á Íslandi, Víðgelmi. Ofan við Húsafell tekur við kyrrð öræfanna og ekki langt að rótum Langjökuls; nokkrir ferðaþjónustuaðilar bjóða ferðir upp á jökul.

 
Í fótspor víkinga, skálda og höfðingja

Borgarfjörður er leiksvið ýmissa stóratburða í sögu þjóðarinnar og frægra Íslendingasagna. Á Landsnámssetri í Borgarnesi (25 km) er sýning um sögu landnáms Íslands á 9. og 10. öld og um sögu skáldsins og víkingsins Egils Skallagrímssonar. Snorri Sturluson, sá rithöfundur Íslendinga sem náð hefur mestri heimsfrægð, bjó í Reykholti í Reykholtsdal á f.hl. 13. aldar. Í Reykholti (12 km) er Snorrastofa, menningar- og miðaldasetur til minningar um Snorra. Þar er einnig heit laug, kennd við Snorra sem var veginn í Reykholti árið 1241.

 
Fyrsta klaustrið og mannskæðasta orrustan

Rétt hjá Jaðri er Bær, gamall kirkjustaður og klausturjörð. Þar var fyrsta biskupssetur á Íslandi í tvo áratugi, frá 1030 til 1049, og þar var stofnsett fyrsta klaustrið og starfræktur fyrsti skóli sem vitað er um á Íslandi. Brautryðjendastarf munkanna í Bæ markar að því leyti þáttaskil í sögu íslenskrar menningar að þar var innleitt latneskt letur í stað rúna. Á Bæ var háð mannskæðasta orrusta í Borgarfirði 28. apríl árið 1237. Þar tókust á um 1.000 manns og féllu meira en þrjátíu menn.

 
Gestgjafar:
Eiríkur og Sigurbjörg

 

í nágrenni