Gistiaðstaða
19 herbergi með sérbaðherbergi og sérinngangi, í tveimur húsum á bænum (tveggja manna herbergi og fjölskylduherbergi). Sjónvarp í hverju herbergi og ókeypis þráðlaust netsamband. Eldunaraðstaða í stærri herbergjunum.
3 sumarhús; tvö þeirra eru við hótelið og eitt er í 2ja km fjarlægð.
1) 4-5 manna sumarhús (37m2) með tveimur svefnherbergjum (hjónaherbergi og kojuherbergi), setustofu með eldhúskrók, baðherbergi og verönd.
2) 4ra manna sumarhús (32m2) með tveimur hjónaherbergjum, setustofu með eldhúskrók, baðherbergi og verönd.
3) 6 manna sumarhús (57 m2) með gestahúsi með 4 svefnplássum í 2ja km fjarlægð frá gististaðnum. Í sumarhúsinu eru þrjú svefnherbergi, setustofa með eldhúskrók, baðherbergi og verönd. Hjá þessu sumarhúsi er 13 m2 gestahús með 4 svefnplássum svo að 10 manns geta gist hér saman.
Í sumarhúsunum er sjónvarp og ókeypis þráðlaust netsamband.
Hjá bænum er húsbílastæði og tjaldstæði með aðgengi að salerni og sturtum.
Hundar eru velkomnir á svæðið. Eitt herbergi er sérstaklega fyrir gesti með hunda og því mikilvægt að láta vita fyrirfram þegar hundar eru með í för.
Þjónusta
Gömlu hlöðunni var breytt í aðlaðandi veitingastað þar sem lögð er áhersla á heimafengið hráefni. Þar er framreitt fjölbreytt morgunverðarhlaðborð og aðrar máltíðir eru í boði kl. 11:30-22:00. Hér má bragða á sveppum og bláberjum úr dalnum, lambakjöti frá næsta bæ, reyktum lunda, silungi frá bænum og laxi úr Heydalsá (síðari hluta sumars). – Vínveitingar.
Leiksvæði fyrir börnin. Styttri og lengri hestaferðir um dalinn. Styttri og lengri kajaksiglingar. Silungsveiði í fjallavatni ofan við dalbotninn. Ókeypis þráðlaust netsamband.
Afþreying
Fjölbreyttar gönguleiðir. Skilti með plöntu- og fuglaheitum fyrir þá sem vilja fræðast betur um náttúrufar og fuglalíf í dalnum. Selaskoðun á Hvítanesi (60 km). Veiði á ís, snjósleðaferðir og norðurljósaskoðun á veturna. Margir áhugaverðir staðir við sunnan- og innanvert Ísafjarðardjúp. Næstu þéttbýlisstaðir: Hólmavík (120 km), Súðavík (120 km) og Ísafjörður (130 km). Galdrasetrið á Hólmavík. Melrakkasetrið á Súðavík. Söfn, skipulagðar ferðir um Ísafjarðardjúp og ýmis önnur þjónusta við ferðamenn á Ísafirði.
Heitar náttúrulaugar/sundlaug
Í Heydal er jarðhiti. Í göngufæri frá bændahótelinu er heit náttúrulaug á Galtahrygg. Í gróðurhúsi á bænum (áður fjárhús) er lítil sundlaug og heitur pottur til afnota fyrir gesti. Utan dyra eru þrír heitir pottar, svonefndir „Onsen-pottar“, unnir úr fjörugrjóti og skeljasandi.
Náttúruparadís þar sem þú finnur kyrrðina
Heydalur er 6 km langur dalur sem gengur inn úr Mjóafirði við Ísafjarðardjúp, friðsæll staður, eilítið úr alfaraleið, vaxinn kjarri og fjölbreytilegum gróðri, hlýleg náttúruparadís á fallegum sumardögum.
Áhugaverðar dagsferðir um nágrennið
Frá bænum liggja leiðir í hæfilegar dagsferðir um næstu firði og sveitir, byggðarlög þar sem áður var búið á mörgum bæjum en fólki hefur fækkað mjög á undanförnum áratugum. Hér ríkir seiðandi andrúmsloft í nánd við hafið og fjöllin þar sem náttúran og sagan skapa umgjörð sem á fáa sína líka á Íslandi.
Þjóðleiðin til Súðavíkur og til Ísafjarðar, höfuðstaðar Vestfjarða, liggur yfir Mjóafjörð utanverðan, en sé haldið í austur liggur þjóðleiðin til Hólmavíkur, sjávarþorps við vestanverðan Húnaflóa.
Gestgjafar: Stella og Gísli