Sölvanes í Skagafirði



Sölvanes í Skagafirði

Í Sölvanesi er boðið upp á gistingu og persónulega þjónustu á íslenskum sveitabæ þar sem rekinn er hefðbundinn búskapur með sauðfé og hross. Einnig eru á bænum hundar, kettir og nokkrar endur og hænur ásamt svíni. Í nágrenni bæjarins er fjölbreytt landslag, góðar gönguleiðir og margir staðir sem gleðja náttúrunnendur og útvistarfólk. Sölvanes er hentugur dvalarstaður fyrir þá sem vilja upplifa Skagafjörð, víðlent og sögufrægt hérað á Norðurlandi. Opið 1. mars til 31. desember.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Hefðbundinn búskapur
  • Wi-Fi
  • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
  • Eldunaraðstaða
  • Hleðslustöð
  • Merktar gönguleiðir
  • Hreint og öruggt

Í nágrenni

  • Mælifellshnjúkur 1.138m - auðveld ganga og frábært útsýni
  • Flúðasiglingar
  • Hestaleiga
  • Handverksgallerí
  • Torfhesthús
  • Varmahlíð 21 km
  • Sundlaug í Varmahlíð
  • Víðimýri torfkirkja 24 km

Gistiaðstaða

Gisting í tveimur aðskildum húsum, heima á bæ og í sérhúsi. Eins manns, tveggja manna og fjölskylduherbergi í boði, í 7 herbergjum. Öll herbergin eru án sérbaðherbergis.

Þjónusta

Boðið er upp á morgunverð og kvöldverð ef pantað er fyrirfram. Snætt er með heimilisfólkinu í notalegu andrúmslofti og hráefni í matinn er gjarnan úr héraði. Í sérhúsinu er eldunaraðstaða fyrir gesti. Netsamband er í báðum húsunum.

Afþreying

Flúðasigling með vönum leiðsögumönnum niður eftir gljúfri Vestari Jökulsár er ógleymanlegt ævintýri fyrir alla fjölskylduna. Þeir sem eru vanari flúðasiglingum geta spreytt sig á Austari Jökulsá. Hestaleiga er á Lýtingsstöðum (4 km frá Sölvanesi) og hægt að panta stuttar eða langar ferðir. Í sund má fara í Steinsstaðaskóla (10 km) og í Varmahlíð (21 km). Á Steinsstöðum er 9 holu golfvöllur. Næsta þorp með verslun og veitingaþjónustu er Varmahlíð (21 km) en til Sauðárkróks, helstu verslunar- og þjónustumiðstöðvar Skagfirðinga, eru 45 km.

Gönguleiðir um dali og fjöll

Í landi Sölvaness eru góðar gönguleiðir, t.d. niður með Svartá, en auk þess er stutt merkt gönguleið (6,7 km) í heimalandi bæjarins sem tilvalið er að skella sér í fyrir matinn. Fyrir vant göngufólk er gaman að ganga á Mælifellshnjúk (1138 m), annað helsta kennileiti Skagafjarðar sem gnæfir fyrir ofan bæinn. Gönguhækkun er 830 m og uppganga tekur um 3-4 klst. Af hnjúknum er frábært útsýni í góðu veðri. 

Til móts við friðsæld óbyggðanna

Vegtenging er við Sprengisandsleið um Vesturdal og á Kjalveg um Mælifellsdal. Skammt framan við Sölvanes byrja svonefndir Skagafjarðardalir. Þeir sneiða ávala fjallahálsa upp á hálendisbrúnina suður af Skagafirði þaðan sem víðátta óbyggðanna opnast allt til Hofsjökuls. Akvegir liggja að fremstu bæjum. Austurdalur er hrein náttúruperla þar sem kolmórauð jökulsá rennur í hrikalegu gljúfri. Vegarslóðar fyrir 4x4 bíla með lágu drifi liggja fram þessa dali og inn í dulmagnaðan heim óbyggðanna.

Íslenski torfbærinn, Ameríkufarar og biskupar

Í Skagafirði er margt að skoða. Skammt norður af Varmahlíð er Glaumbær, byggðasafn héraðsins í vel varðveittum íslenskum torfbæ. Á Hofsósi, skammt út með firðinum að austan, er Vesturfarasetur, safn til minja um þá Íslendinga sem fluttust búferlum til Norður-Ameríku á s.hl. 19 aldar. Frá Hofsósi er skammur vegur að Hólum í Hjaltadal, fyrrum biskupssetri og höfuðbóli.
  
Hægt er að skoða sögustaði Sturlungu og er hægt að nálgast upplýsingar um helstu sögustaði á íslensku, ensku og þýsku á vefsíðunni: www.sturlungaslod.is

Gestgjafar: Eydís, Máni, Elín og Magnús.  

 

í nágrenni