Gistiaðstaða
Herbergi með sérbaðherbergi, allt frá 2 manna upp í rúmgott fjölskylduherbergi með 4 rúmum (má bæta þar við 2 rúmum). Þrjú herbergi eru með sérinngangi; þar af deila tvö herbergi sama inngangi og á milli þeirra er eldunaraðstaða og ísskápur. Tvö herbergi eru sérhönnuð fyrir fólk í hjólastólum.
Ókeypis þráðlaust netsamband er í sameiginlegu rými. Heitur pottur er við húsið. Þrjú herbergi eru með sérinngangi og þar eru hundar leyfðir.
Veitingar/máltíðir
Veitingastaðurinn Lamb Inn er í húsnæði sem áður var hlaða á bænum. Þar býðst gestum að gæða sér á hefðbundnum íslenskum réttum úr lambakjöti, sérgrein kokksins á staðnum, en á matseðli eru einnig fiskréttir, þorskur og bleikja og annað góðmeti úr hráefni úr heimabyggð. Heimabakað brauð á morgunverðarhlaðborði ásamt öðru fersku hráefni úr heimahéraði.
Þjónusta/afþreying
Í gamla bænum á Öngulsstöðum (elstu innviðir frá 1830-1840) er safn þar sem má finna andrúmsloft liðins tíma (opið á sumrin). Gönguleiðir, í sveitinni og um dali og fjöll. Hestaferðir: Hestaleigan Kátur, Kaupangi (5 km) og Hestaleigan Uppsölum (3 km). Golfvöllur á Þverá, 9 holur, par 3 (2 km). Sundlaug á Hrafnagili (5 km). Á Syðra-Lauglandi er veitingastaðurinn Silva sem býður eingöngu grænmetis- og hráfæðisrétti (opið á sumrin). Kaffi Kú [Cowshed Café] í Garði (700 m). Jólagarðurinn, Sléttu, rétt norðan við Hrafnagil, verslun með jólavörur árið um kring (6 km). Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, ofan við Akureyri (18 km). Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, skemmtistöðum, söfnum og fjölþættri þjónustu við ferðamenn: Akureyri (10 km).
Afþreying og útivist að sumri sem vetri
Dalurinn upp frá botni Eyjafjarðar, sem í daglegu tali ber sama nafn og fjörðurinn sjálfur, er 60 km langur. Hér er þéttbýlt, veðursælt og blómlegt landbúnaðarhérað. Tilvalið er að bregað sér í hringferð um sveitina frá Öngulsstöðum fram fyrir bæinn Möðruvelli austan megin, þar yfir brú yfir Eyjafjarðará, og síðan út eftir héraðinu vestan megin til Akureyrar. Eftir að hafa skoðað sig um í miðbæ Akureyrar er svo haldið til baka, austur yfir fjarðarbotninn og suður með bæjaröðinni til Öngulsstaða.
Vinsælasti skíðastaður á landinu – sveitasæla og norðurljós
Akureyri, fjölmennasti bær á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins, stendur í fallegu umhverfi. Þar bíður okkar athafna- og mannlíf í takt við nútímann, söfn, listagallerí, veitingastaðir, verslanir, nokkrir skemmtistaðir og krár. Rétt fyrir ofan bæinn er skíðasvæðið í Hlíðarfjalli (20 mín. akstur frá Öngulsstöðum), vinsælasti skíðastaður á landinu. Lamb Inn er því ákjósanlegur staður fyrir skíðafólk sem vill slaka á í heitum potti við gistiheimilið og njóta sveitasælunnar (og norðurljósa ef heppnin er með) eftir skemmtilegan dag í skíðabrekk-unum. (Geymsla fyrir skíðabúnað á Lamb Inn.)
Mývatn – hvalaskoðun – síldarbærinn – íslenski torfbærinn
Lamb Inn á Öngulsstöðum hentar sem dvalarstaður til dagsferða um næstu sveitir á Norðurlandi. Til Mývatns og náttúruundranna, sem þar er að finna, eru aðeins 70 km (og á þeirri leið er einn kunnasti foss á Íslandi – Goðafoss). Til Húsavíkur, bæjar sem er víðkunnur fyrir hvalaskoðunarferðir, eru 97 km. Út með Eyjafirði að vestan eru 89 km til Siglufjarðar, bæjar sem var „höfuðborg síldveiða“ við Ísland á fyrri hluta 20. aldar og er nú fjölsóttur ferðamannastaður. Við austanverðan Eyjafjörð er svo Byggðasafnið í Laufási (34 km) þar sem fólki býðst hverfa aftur í tímann í reisulegum íslenskum torfbæ (opið yfir sumarmánuðina).
Gestgjafar: Matthew, Aurora og Jóhannes Geir