Hunkubakkar á Síðu



Hunkubakkar á Síðu

Tveggja eða þriggja manna herbergi í smáhýsum í hlýlegu umhverfi á bökkum Skaftár skammt vestur af þorpinu Kirkjubæjarklaustri á sunnanverðu Íslandi. Góður kostur fyrir fjölskyldur. Veitingastaður á bænum. Fallegar gönguleiðir og margir áhugaverðir staðir í nágrenninu, í sveitinni og á hálendinu fyrir ofan byggðina. 

Opið:  1. feb. - 16. sept. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Sér baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Bústaður
  • Hefðbundinn búskapur
  • Veitingastaður
  • Vínveitingar
  • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Merktar gönguleiðir
  • Voffi velkominn
  • Veiði / veiðileyfi

Í nágrenni

  • Fjaðrárgljúfur 3 km
  • Kirkjubæjarklaustur 7 km
  • Sundlaug og Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri
  • Golf 10 km
  • Fagrifoss 20 km
  • Lakagígar 53 km
  • Eldgjá 63 km
  • Skaftafell 78 km

Gistiaðstaða

Gisting í eins, tveggja og fjögurra eininga smáhýsum. Þrjú hús með tveimur herbergjum með sameiginlegu baðherbergi og tvíbreiðum rúmum, eitt þeirra með efri koju fyrir eitt barn. Nokkur hús með með sér inngang í hvert herbergi, tveggja manna eða fjölskylduherbergi með sérbaði. Tilvalið fyrir fjölskyldur eða hópa. Ókeypis þráðlaust netsamband í sameiginlegum rýmum í aðalbyggingu með móttöku og veitingastað.

Gæludýr eru leyfð í gistingu í 6 bjálkahúsum, þar sem hvert herbergi hefur sérinngang.

 
Veitingar/máltíðir

Veitingastaðurinn, þar sem morgunverður er borinn fram, er í aðalbyggingu skammt frá smáhýsunum og rúmar 50 manns. Hann er opinn á kvöldin alla daga frá 1. maí til 1. nóvember. Yfir vetrartímann er ráðlagt að bóka kvöldverð fyrirfram. Frá 1. júní til 1. september er veitingastaðurinn jafnframt opinn frá kl. 13-16.  Í boði eru ljúffengar veitingar í vistlegum sal í fallegu umhverfi. Sérréttir hússins er ljúffengt lambakjöt, beint frá býli og aðrir réttir sem innihalda gjarnan hráefni af svæðinu. Heimatilbúnar súpur, kökur og eftirréttir.   

 
Þjónusta/afþreying

Áhugaverðar gönguleiðir og veiði í nágrenninu. Fuglaskoðun. Daglegar rútuferðir með leiðsögu á sumrin frá Kirkjubæjarklaustri til ýmissa af kunnustu og áhugaverðustu stöðunum á þessu svæði, t.d. að Lakagígum, í Eldgjá, í Skaftafell og að Jökulsárlóni. 9 holu golfvöllur í Efri-Vík (10 km). Næsta þéttbýli með sundlaug, matvöruverslun og annarri þjónustu: þorpið Kirkjubæjarklaustur (7 km). Á Hunkubökkum er rekið sauðfjárbú samhliða ferðaþjónustu.  Næsta hleðslustöð fyrir rafbíla er á Kirkjubæjarklaustri (6 km).

 
Gönguleiðir um fjölbreytt og fallegt svæði

Hunkubakkar standa á bökkum Skaftár, 1 km frá þjóðvegi 1, í umhverfi sem er rómað fyrir náttúrufegurð. Gegnt bænum, á syðri bakka árinnar, er austurjaðar vestari hraunstraumsins mikla, sem rann í Skaftáreldum 1783, en á nyrði bakka árinnar eru grösugar hlíðar og taka síðan við heiðar og óbyggðalönd. Um þetta landsvæði liggja fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir þar sem hver og einn finnur slóðir við sitt hæfi. Rétt innan við bæinn (1 km) er vegurinn inn að Lakagígum (4x4) og spölkorn austan við vegamótin er Fjarðrárgljúfur sem er vel þess virði að skoða. Fleiri skemmtilegar gönguleiðir eru í kring um Krirkjubæjarklaustur; „austur brúnir“ að þorpinu og Landbrotshólar rétt sunnan við þjóðveginn. Einnig má nefna frábæra göngustaði sem eru aðeins lengra frá Landmannalaugar, Sveinstindur og Langisjór (ca. 90 km) og í austurátt er Skaftafell (78 km) sem býður upp á skemmtilegar og fjölbreyttar gönguleiðir. Starfsfólk á Hunkubökkum er reiðubúið að liðsinna göngufólki og benda á gönguleiðir í grenndinni og víðar.

 
Lakagígar og Eldgjá

Kunnasta náttúruvættið á hálendinu ofan við byggðina eru Lakagígar (53 km frá Hunkubökkum eftir fjallvegi (4x4) sem beygt er inn á 1 km innan við bæinn). Frá Lakagígum, á 25 km langri gossprungu, rann mesta hraun í einu gosi á sögulegum tíma í Evrópu árið 1783, Skaftáreldahraun. Gosið hófst 8. júní en vestari hraunstraumurinn stöðvaðist hinum megin Skaftár, spölkorn austan við Hunkubakka, 20. júlí þá um sumarið. Skammt norður af Lakagígum er annað einstakt friðlýst náttúrufyrirbæri, Eldgjá, 70 km löng gossprunga sem gaus síðast árið 934. Lakagígar og Eldgjá eru í Vatnajökulsþjóðgarði. Hjá starfsmanni þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri má fá upplýsingar um ferðir, akstur, aðgengi og umgengni á þessu viðkvæma svæði. Á sumrin eru í boði daglegar kynnisferðir á rútu með leiðsögumanni frá Kirkjubæjarklaustri (ekið um hlað á Hunkubökkum).

 
Vík í Mýrdal, Reynisfjara, Skaftafell, Jökulsárlón

Hunkubakkar liggja vel við til dagsferða til ýmissa áhugaverðustu staðanna á suður- og suðaustanverðu landinu. Til vesturs eru um 70 km yfir Mýrdalssand til Víkur í Mýrdal og þaðan um 10 km að hinum einstæðu stuðlabergsmyndunum í Reynisfjöru. Til austurs liggur leiðin um sveitina Síðu, yfir eystra Skaftáreldahraun og síðan um Skeiðarársand til Skaftafells (78 km), sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Frá Skaftafelli eru 60 km að hinu víðkunna Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi.

Gestgjafar: Pálmi Harðarson og Jakobina Flosadóttir

 

í nágrenni