Gistiaðstaða
Fjögur herbergi, eins manns, tveggja manna og tveggja manna herbergi með aukarúmi (svefnsófa), öll með sérbaði og sturtu. Eitt herbergi er á neðri hæð hússins en þrjú herbergi á efri hæð (ekki aðgengi fyrir fólk í hjólastól). Húsið á Öndólfsstöðum var reist árið 1950 en efri hæðin var öll tekin í gegn ásamt gistiherberginu á neðri hæð árið 2015. Þrifið daglega. Hægt að fá þveginn þvott gegn endurgjaldi.
Máltíðir
Fjölbreyttur morgunverður þar sem lögð er áhersla á matvæli beint frá býli og úr héraði og húsfreyja býður daglega upp á glæný hænuegg. Í boði er að kaupa nesti sem gestir smyrja sér sjálfir. Veitingastaður og matvöruverslun á Laugum (3 km).
Þjónusta og afþreying
Eigendur og gestgjafar á Öndólfssstöðum, hjónin Hlynur og Abba, leggja áherslu á persónulega og góða þjónustu. Þau búa á neðri hæð hússins og eru alltaf til taks ef gesti vanhagar um eitthvað. Gestum er velkomið að skoða sig um og kynnast dýrunum á bænum. Næsta nágrenni bæjarins í Reykjadal er tilvalið til gönguferða í náttúrunni og fuglaskoðunar. 25 m sundlaug með heitum pottum á Laugum. Hestaleiga í Hraunkoti (33 km) og í Saltvík, rétt sunnan Húsavíkur (39 km).
Goðafoss, Grenjaðarstaðir og Laxárdalur
Frá Öndólfsstöðum er ekki langt að aka yfir Fljótsheiði til að skoða Goðafoss. Sé ekið út eftir Reykjadal og stefnan tekin yfir í Laxárdal er ekið fram hjá Grenjaðarstað, fornu stórbýli þar sem er gott byggðasafn í einum af stærstu og reisulegustu torfbæjum á Íslandi. Þaðan sér til Laxár, kunnustu laxveiðiár á landinu þar sem náttúran skartar sínu fegursta.
Hvalaskoðun, könnunarferðir og Sjóböðin á Húsavík
Á Húsavík gefst tækifæri til að bregða sér í hvalaskoðun. Þaðan eru daglegar hvalaskoðunasiglingar og fróðlegt safn um hvali, lifnaðarháttu þeirra og búsvæði. Einnig er tilvalið að heimsækja Könnunarsögusafnið, safn um sögu land- og geimkönnunar. Rétt norðan við bæinn eru svo Sjóböðin, GeoSea, þar sem einstök upplifun bíður þeirra sem kunna að meta heit böð og stórfenglegt útsýni.
Töfrar Mývatnssveitar, Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur
Frá Öndólfsstöðum er kjörið að bregða sér í dagsferðir í næstu sveitir. Þar mælum við að sjálfsögðu með skoðunarferð til Mývatns (30 km) þar sem bíða okkur staðir eins og Dimmuborgir, Hverfjall, Hverarönd undir Námafjalli og Jarðböðin. Frá Mývatni eru svo 50 km að Dettifossi. Dagsferð í Ásbyrgi og heimsókn í Jökulsárgljúfur er einnig ógleymanleg upplifun.
Gestgjafar: Hlynur og Abba.