Gistiaðstaða
1x2 manna og 1x3 manna herbergi með sérbaðherbergi og 3x2 og 1xeins manns herbergi með sameiginlegu baðherbergi. Setu- og borðstofa.
Veitingar/máltíðir
Ekki er boðið upp á morgunverð, en gestir hafa aðgang að eldhúsi. Næsti veitingastaður er í þorpinu Vík (6 km).
Þjónusta/afþreying
Verslun og sundlaug í þorpinu Vík (6 km). 9 holu golfvöllur við þorpið. Jöklaferðir með leiðsögumanni, á vélsleðum eða fótgangandi (24 km). Gott byggða- og minjasafn á Skógum (26 km).
Óskastaður útivistarfólks og fuglaskoðara
Mýrdalur er grösug og hlýleg sveit á milli svartra eyðisanda. Upp af láglendinu rísa heiðar, hálsar og móbergsfjöll, skorin sundur af þröngum dölum og hrikalegum gljúfrum allt að Mýrdalsjökli. Hér er paradís útivistarfólks og áhugaverðar gönguleiðir við allra hæfi. Fuglalíf er mikið og fjölbreytt og víða hægt að fara í fuglaskoðun. Fýllinn er einkennisfugl Mýrdals og heldur til í hömrum og giljum um alla sveit.
Svartir sandar, stuðlabergsheimur og klettahallir
Reynisfjara (8 km) er einn af kunnustu ferðamannastöðum í Mýrdal. Þar fellur úthafsaldan að svörtum fjörusandinum en rétt ofan við sjávarmál, austan megin, eru fagrar stuðlabergsmyndanir og hellisskútar. Undan landi rísa tignarlegir Reynisdrangar. Vestan megin við fjöruna rís önnur fjölsótt náttúruperla, Dyrhólaey (12 km), hömrum girtur höfði með fjölskrúðugum gróðri og einstöku fuglalífi.
Víkurfjara, Hjörleifshöfði, Skógafoss
Sandfjaran hjá þorpinu Vík er vinsælt útivistarsvæði; National Geographic gaf henni nafnbótinu „ein af tíu fegurstu ströndum heims“. Austur af Vík er rís Hjörleifshöfði upp af Mýrdalssandi (21 km) en í norðaustri frá sandinum sér upp á hjarnbreiður Mýrdalsjökuls, jökulsins sem geymir eldfjallið Kötlu. Frá Giljum eru 26 km að Skógum. Þar er einn kunnasti foss á Íslandi, Skógafoss, og fjölbreytt og fróðlegt byggðasafn sem gefur góða mynd af lífi og kjörum íbúa á þessum slóðum á fyrri tíð.
Gestgjafar: Ólafur og Birna.