Gistiaðstaða
Á Vogi á Fellsströnd var áður blómlegt bændabýli þar sem útihúsum hefur verið breytt í hlýlegt sveitahótel með 28 herbergjum. Andrúmsloftið er vinalegt og þægilegt. Herbergin eru björt, innréttuð í einföldum stíl. Öll herbergi eru með sérbaðherbergi og sturtu.
Þjónusta
Í veitingastofunni á Vogi býðst gestum að gæða sér á lamba- og laxaréttum og öðrum sérréttum úr héraðinu. Gestir geta einnig lagað sínar eigin máltíðir í notalegum grillskála. Hægt er að kaupa kjöt og mjólkurvörur á staðnum.
Á Vogi er gufubað, heitur pottur, sjónvarpsstofa og leiksvæði fyrir börn. Ókeypis þráðlaus nettenging er fyrir gesti í móttöku, borðsal og setustofu.
Afþreying
Um 30 km í austur frá Vogi er góð útisundlaug, jarðhitalaug, í Sælingsdal. Þar í dalnum er einn kunnasti bústaður álfa á Íslandi, Tungustapi. Stutta ökuleið frá sundlauginni er þorpið Búðardalur með verslunum og annarri þjónustu.
Náttúrufegurð og saga
Vogur er í hlýlegri sveit þar sem víða vex villt kjarr og hægt er að upplifa indæla sumar- og vetrardaga á göngu. Sé ekið í austur frá Vogi, inn með ströndinni, er fljótlega komið á söguslóðir einnar þekktustu og vinsælustu Íslendingasögunnar, Laxdælu, í sveitina Dali.
Á slóðum landkönnuða
Nokkrum kílómetrum sunnan við Búðardal er ekið inn Haukadal þar sem er Safnið á Eiríksstöðum. Þar má skoða eftirlíkingu af bústað víkingsins Eiríks rauða. Sonur Eiríks, Leifur heppni, er sagður hafa fundið Norður-Ameríku fyrstur Evrópubúa um 1000 (opið júní, júlí og ágúst).
Gestgjafar: Guðmundur og Sólveig