Mjóeyri við Eskifjörð



Mjóeyri við Eskifjörð

Ferðaþjónustan Mjóeyri er staðsett örstuttan spöl (300 m) utan við þéttbýlið á Eskifirði. Gisting í herbergjum og sumarhúsum.  Á veitingastaðnum Randulffssjóhús, hinu sögufræga húsi, bjóða gestgjafarnir upp á mat úr héraði. Frábært útsýni yfir fjörðinn og til tignarlegra fjalla. Fjölbreyttir möguleikar til útivistar og afþreyingar og skipulagðar ferðir um svæðið. Góð staðsetning til skoðunarferða um Austfirði. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Sér baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Bústaður
  • Wi-Fi
  • Heitur pottur
  • Veitingastaður
  • Vínveitingar
  • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
  • Eldunaraðstaða
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Norðurljósaþjónusta
  • Voffi velkominn
  • Veiði / veiðileyfi

Í nágrenni

  • Göngu- og hreindýraferðir með gestgjafanum Sævari
  • Kajakferðir, köfun og hellaferðir
  • Randúlffssjóhús, veitingahús í gamalli útgerð
    Eskifjörður (sjávarsafn, sundlaug)
  • Golfvellir á Eskifirði (5 km), Reyðarfirði (19 km) og Norðfirði (21 km)
  • Á vetrartíma: snjósleðaferðir, ísklifur og skíði á Oddskarði 9 km
  • Reyðarfjörður 17 km
  • Hestaleiga 19 km
  • Norðfjörður/Neskaupsstaður 24 km
  • Egilsstaðir 48 km

Gistiaðstaða – gistiheimili og sumarhús

Gistiheimilið:
Í gamla húsinu á Mjóeyri sem upphaflega var reist árið 1895 eru fjögur eins til tveggja manna herbergi sem deila baðherbergi. Sameiginlegur eldhúskrókur og setustofa með sjónvarpi. Stór sólpallur með gasgrilli er við inngang á neðri hæð. Í stakstæðum húsum er einnig boðið upp á 2ja manna herbergi (24m2) með sérbaðherbergi, svefnsófa og einfaldri eldunaraðstöðu (ísskápur og 2 hellur). Uppbúin rúm og morgunverður innifalinn.

Sumarhús:
5x4ra manna sumarhús (39 m2), veggir klæddir að innan með panel og harðviðarparket er á gólfi. Verönd er við hvert hús og á efri hæð eru svalir með frábæru útsýni. Á efri hæð sumarhúsanna eru tvö 2ja manna herbergi og er stiginn brattur upp (öryggishlið er við efri enda stigans). Á neðri hæð er baðherbergi, vel búið eldhús og setustofa með sjónvarpi og sófa sem auðvelt er að breyta í rúm fyrir tvo.
5x2ja manna sumarhús og eru þrjú þeirra 24 m2 en tvö hús eru aðeins stærri. Í öllum húsunum fimm er eitt rými með tveimur rúmum, svefnsófa fyrir tvo, einföld eldunaraðstaða (ísskápur og 2 hellur) og baðherbergi með sturtu.
Ókeypis þráðlaust netsamband er í öllum herbergjum og sumarhúsum á Mjóeyri. Baðhús með sturtum, saunu og heitum potti er til afnota fyrir alla gesti.

 
Veitingar/máltíðir

Hægt er að fá morgunverð og kvöldverð ef pantað er með fyrirvara. Gestgjafarnir á Mjóeyri reka einnig veitingastaðinn Randulffssjóhús á neðri hæð húss sem var reist um 1890 og lengst af notað sem síldarsjóhús. Veitingastaðurinn, sem er í um 600 m fjarlægð frá gististaðnum, er opinn alla daga í júní, júlí og ágúst. Innréttingar og yfirbragð minna á liðna daga, sjósókn og gamla sjávarhætti. Á matseðlinum eru austfirskar krásir, hreindýr, hákarl, harðfiskur og ferskt sjávarfang beint úr firðinum. Á efri hæð hússins er varðveitt verðbúð síldarsjómanna í sínu upprunalega horfi. Næsta matvöruverslun er í miðbæ Eskifjarðar.

 
Þjónusta/afþreying

Ferðaþjónustan á Mjóeyri býður gönguferðir með leiðsögn um næsta nágrenni Eskifjarðar, ströndina og fjallendið norðan Reyðarfjarðar, dagsferðir og lengri trússferðir. Hreindýraskoðun. Hellaskoðun. Fuglaskoðun. Hestaleiga (19 km). Skotveiði. Aðstaða (og aðstoð ef þarf) fyrir kafara á staðnum. 

Sjóminjasafn Austurlands og Steinasafn Sörens og Sigurborgar á Eskifirði. Stríðsárasafnið á Reyðarfirði (17 km). Sundlaug með heitum pottum, gufu og rennibraut á Eskifirði. Í dalnum inn af Eskifirði er 9 holu golfvöllur í Byggðarholti (5 km), 9 holu golfvöllur er á Kollaleirum á Reyðarfirði (19 km) og á Norðfirði er 9 holu golfvöllur á Grænanesi (21 km).

Á eitt besta skíðasvæði á Austfjörðum, í Oddsskarði, er aðeins 10 mín. akstur frá Mjóeyri. Ýmis þjónusta í boði fyrir skíða- og brettafólk. Leiðsögn með vélsleðamönnum um fjöll og eyðifirði. Góð aðstaða er fyrir umhirðu skíða og snjóbretta á Mjóeyri.

Til Egilsstaða eru 48 km og til Seyðisfjarðar eru 77 km, en þar leggur ferjan Norræna að landi.


- TILBOÐ FYRIR GOLFARA -

Þeir sem gista á Mjóeyri fá 50% afsláttarmiða sem gilda á golfvellina sem eru næstu gististaðnum, þ.e. Byggðarholt á Eskifirði, Golfklúbbi Fjarðabyggðar Reyðarfirði og Golfklúbbi Norðfjarðar.


-  BARNAGÆSLA Í SUMAR - 
Boðið er upp á barnagæslu alla virka daga frá kl 9.00-11.00 yfir sumartímann.

 
Eskifjörður – nábýli við hafið og horfinn tíma

Á Eskifirði, sem er dæmigert sjávarpláss við austfirskan fjörð hefur verið verslunarstaður frá því rétt fyrir aldmótin 1800, búa nú um 1.000 manns. Íbúar í þorpinu hafa lagt rækt við að varðveita gömul hús og minjar um útgerðarmenningu á fyrri tíð og gefur það staðnum sérstakt og áhugavert andrúmsloft. Umgjörð þorpins er falleg og fjöllin tíguleg þar sem þau speglast í lognkyrrum sjónum. Út með ströndinni var áður búið á mörgum bæjum en nú eru fáir í byggð. Þar eru hins vegar áhugaverðar gönguslóðir, meðfram ströndinni eða upp til fjalla. Gegnt þorpinu, hinum megin við fjörðinn, er Hólmanes, friðlýst svæði þar sem eru merktar gönguleiðir.

 
Neskaupsstaður og Reyðarfjörður

Frá Eskifirði eru 24 km til Neskaupsstaðar, öflugs sjávarútvegsbæjar við næsta fjörð fyrir norðan. Reyðarfjörður (17 km), nágrannabær Eskifjarðar, er fjölmennasti bærinn í þessum landshluta með verslunum og ýmsum þjónustufyrirtækjum. Þar er Íslenska stríðsárasafnið sem veitir innsýn í mannlíf á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni og áhrif hersetunnar á þessa fámennu þjóð.

Fáskrúðsfjörður – íslenskt sjávarþorp sem er svolítið franskt

Frá Reyðarfirði eru 19 km til þorpsins við Fáskrúðsfjörð, næsta fjörð fyrir sunnan; þar er einstakt safn og aðrar minjar um franska skútusjómenn sem sóttu á Íslandsmið á síðari hluta 19. aldar og fram á þá 20. og höfðu bækistöð á þessum austurfirska firði. Út með Fáskrúðsfirði, báðum megin, liggja ágætir akvegir um hrífandi fallegar slóðir þar sem gefast mörg tækifæri til að njóta íslenskrar náttúru eins og hún gerist fegurst í þessum landshluta.

Gestgjafar: Berglind og Sævar.

 

í nágrenni