Úttekt á aðgengi fyrir fatlaða



Úttekt á aðgengi fyrir fatlaða

05.09.2005 | Marteinn Njálsson
Úttekt á aðgengi fyrir fatlaða

Síðla sumars fór Ferðaþjónusta bænda af stað með verkefnið Aðgengi fyrir alla innan Ferðaþjónustu bænda.  Markmið verkefnisins er að Ferðaþjónusta bænda bæti upplýsingamiðlun til ferðamanna sem eru fatlaðir með því að kortleggja þá staði innan félagsins sem hafa aðgengi fyrir fatlaða og jafnframt veita ferðaþjónustubændum ráðgjöf um það sem betur má fara varðandi bætt aðgengi fyrir alla. 

Starfsmaður verkefnisins er Þórunn Edda Bjarnadóttir en hún gerði nýlega athugun á aðgengi fatlaðra að nokkrum náttúruverndarsvæðum sem lokaverkefni í BS námi við umhverfisskipulag við Landbúnaðarháskóla Íslands. Kom þar í ljós að aðgengið var víða ábótavant en ósjaldan mætti með litlum kostnaði lagfæra það.  Í framhaldi af þessu verður áhugavert að sjá niðurstöður varðandi aðgengi hjá ferðaþjónustubændum, en alls eru nú um 150  félagar í Ferðaþjónustu bænda.  Þeir bændur sem Þórunn Edda hefur heimsótt til þessa eru mjög áhugasamir enda ekki á hverjum degi sem aðstaðan er kortlögð á þennan hátt, né sérfræðingur á þessu sviði kemur í heimsókn.

Leitað hefur verið til nokkurra aðila til þess að styrkja verkefnið og hefur nú þegar fengist styrkir frá samgönguráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu.  Úttektum mun ljúka í október og verður verkefnið kynnt á Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda í nóvember næstkomandi í samstarfi við þá sem styrkja verkefnið.

Þess má geta að áætlað er að um sjöttungur þjóðarinnar sé hreyfihamlaður á einhvern hátt hvort sem þeir eru bundnir í hjólastól eða eiga erfitt með gang sökum aldurs. Með ýmsum opinberum reglum og fyrirmælum hefur verið reynt að bæta hag þeirra og aðstöðu en því miður er enn mörgu ábótavant á þessu sviði, um land allt og er ferðaþjónusta þar ekki undanskilin.  Það er ljóst að verkefni sem þetta ætti að koma öllum til góða því að gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða þýðir gott aðgengi fyrir alla.
 

í nágrenni