Hótel Anna fær umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2007



Hótel Anna fær umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2007

03.01.2008 | Marteinn Njálsson

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru afhent 28. desember síðastliðinn í 13. sinn. Að þessu sinni var verðlaunahafi Hótel Anna á Moldnúpi undir Eyjafjöllum en Hótel Anna er einmitt sveitahótel innan raða Ferðaþjónustu bænda.

Við hjá Ferðaþjónustu bænda erum stolt af þessum árangri félaganna Eyju Þóru Einarsdóttur og Jóhanns Frímannsonar og óskum þeim innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.

Í rökstuðningi með vali Country Hótel Önnu segir m.a. að “Frá árinu 2003 hefur fyrirtækið unnið að því að aðlaga starfsemi sýna umhverfisstjórnun og árið 2004 var skrefið stigið og farið að vinna eftir viðmiðum Green Globe 21. Árið 2006 fékk hótelið vottun Green Globe 21 á umhverfisstefnu sinni”.

Um sveitahótelið
Hótel Anna er staðsett undir Eyjafjöllum á jörðinni Moldnúpi og er í eigu hjónanna Eyju Þóru Einarsdóttur og Jóhanns Frímannssonar, ábúanda á Moldnúpi. Hótelið var opnað í byrjun júlí árið 2002 og ber nafn Sigríðar Önnu Jónsdóttur, verkakonu, vefara og fjósakonu með meiru. Að auki var Anna mikill ferðalangur og ferðaðist víða um heiminn, oft á tíðum ein síns liðs og af litlum efnum.

Hótelið er í gömlu húsi, byggt 1927, það er talið minnsta þriggja stjörnu hótel á landinu, með 5 tveggja manna herbergjum. Í samræmi við umhverfisstefnu fyrirtækisins eru innréttingar og húsgögn í stíl við aldur hússins einnig er lögð áhersla á að hráefni í veitingum taka mið af hefðum úr sveitinni og sé sem mest úr héraði. Mikil áhersla er lögð á að veita persónulega þjónustu og skapa þægilegt umhverfi fyrir gesti, fræðsla um sögu og menningu er í hávegum höfð og saga ferðalangsins Önnu haldið á lofti. Í næsta nágrenni staðarins er fjölbreytt úrval af gönguleiðum og áhugaverðum stöðum.  Nánar um sveitahótelið.

Láta til sín taka á fleiri sviðum
Landeigendur að Moldanúpi láta til sín taka á fleiri sviðum varðandi umhverfis- og náttúruvernd m.a. taka þau þátt í samvinnuverkefni með nágrönnum um uppgræðslu Ásólfsskálaheiðar “Bændur gæða landið”, Eyja Þóra leiðir samstarf sveitafélaga í Rangárvalla- og Skaftafellssýslu ásamt Skaftafellsþjóðgarði um að gerast vottað samfélag s.kv. stöðlum Green Globe 21.


Á myndinni eru Eyja Þóra og Jóhann á Moldnúpi, fyrir framan, ásamt Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra og Val Hilmarssyni, umhverfisfulltrúa Ferðamálastofu.


Meira um Hótel Önnu >HÉR<

 

í nágrenni