Gerum góða gistingu betri - Niðurstöður sumarsins



Gerum góða gistingu betri - Niðurstöður sumarsins

09.01.2009 | Katrín B. Jónasdóttir


Á Uppskeruhátíðinni í nóvember síðastliðinn kynnti Bjarni framkvæmdastjóri Better Business helstu niðurstöður frá sumrinu.   Það var mjög áhugavert að heyra umsagnir gestanna og hvaða einkunnir þeir gáfu einstökum þáttum.  Þegar lagðar voru saman allar heimsóknir á bæina var heildareinkunnin 7,8 en best var útkoman í veitingasal og öðru rými (þ.e. svæði fyrir utan herbergi og veitingasal), gæði matar, yfirbragði/aðstöðu og brottför.   Umhverfis- og öryggisþættir komu verst út en annað sem þarf að bæta eru atriði sem varða bókun, aðkomu, upphaf dvalar, herbergi, morgunmat, upplifun/sveitasælu, upplýsingamiðlun og umhyggju og þjónustu.  Sjá kynningu Bjarna hér.

 

Framúrskarandi bæir

Fimm bæjum voru veitt sérstök viðurkenningarskjöl fyrir góðan árangur en þeir fengu heildareinkunn yfir 8,5 og telst það vera mjög góður árangur.  Þessir bæir eru Heydalur í Mjóafirði, Engimýri í Öxnadal, Brunnhóll á Mýrum, Hótel Hellnar á Snæfellsnesi og Smyrlabjörg í Suðursveit.  Óskum við þeim innilega til hamingju með þennan góða árangur.

Þessi frammistaða mun eflaust hvetja rekstraraðilana áfram við að halda áfram á þessari braut og verða öðrum hvatning til að gera betur.

 

Framhaldið

Á næstu mánuðum  er ætlunin að rýna betur í niðurstöðurnar og nýta þær við uppbyggingu og þróun á þeim þjónustuþáttum sem skipta okkur öll máli, jafnframt að endurskoða gátlistann fyrir vorið.  Allar ábendingar er vel þegnar frá félagsmönnum.  Þess má geta að niðurstöður verkefnisins gefa ekki einungis einstökum bæjum verðmætar upplýsingar því  hér er um að ræða mjög gagnlegar upplýsingar fyrir heildarsamtök Ferðaþjónustu bænda.  Það má líta á þetta sem mikilvægan þátt í eflingu gæðastarfsins  og með því að halda verkefninu áfram næstu tvö sumur verður hægt að gera samanburð á millil ára.  Allir félagar í Ferðaþjónustu bænda sem bjóða upp á gistingu í uppbúnum rúmum og morgunverði geta tekið þátt í þessu verkefni. 

Á myndinni  eru hjónin Sigurbjörn og Laufey frá Smyrlabjörgum búin að taka við viðurkenningu frá Bjarna hjá Better Business og Berglindi frá Ferðaþjónustu bænda.
Á myndinni  eru hjónin Sigurbjörn og Laufey frá Smyrlabjörgum búin að taka við viðurkenningu frá Bjarna hjá Better Business og Berglindi frá Ferðaþjónustu bænda.

í nágrenni