Langþráð vefbókunarkerfi Ferðaþjónustu bænda komið í gagnið



Langþráð vefbókunarkerfi Ferðaþjónustu bænda komið í gagnið

27.03.2009 | Berglind Viktorsdóttir



Össur Skarphéðinsson, ráðherra ferðamála, opnaði formlega hið nýja veflæga bókunarkerfi miðvikudaginn 25. mars í framhaldi af aðalfundum Ferðaþjónustu bænda hf. og Félags ferðaþjónustubænda. Með kerfinu gefst ferðamönnum færi á að leita, bóka og greiða fyrir gistingu, mat og afþreyingu á Netinu hjá um 140 ferðaþjónustuaðilum. Á sama tíma ganga bæði enski og íslenski hluti vefsins okkar í endurnýjun lífdaga en meðal nýjunga má nefna fullkomið landakortakerfi, ljósmyndasafn og bókunarvélar.

Í ræðu sem Sævar Skaptason framkvæmdastjóri hélt við opnun kerfisins sagði hann að vinnan hefði tekið langan tíma en sagði jafnframt að fyrirtækið væri að taka stór skref inn í framtíðina. Viðskiptavinir eiga þess nú kost að skipuleggja ferð um landið í gegnum Netið og þurfa ekki að bíða eftir staðfestingu ferðaþjónustubóndans hvort gistirými er fyrir hendi eður ei. Það var fyrirtækið TM-Software sem sá um smíði kerfisins að mestu leyti en Marteinn Njálsson formaður Félags ferðaþjónustubænda var verkefnisstjóri. Heildarkostnaður frá því að þróun hófst og kerfið komst í gagnið er um 30 milljónir króna.

Samhliða smíði nýju vefjanna hefur verið byggður upp sérstakur vefaðgang fyrir ferðaþjónustubændur þar sem þeir sjálfir uppfæra bókunarstöðuna á sínum bæjum. Á innri vef munu þeir í framtíðinni  einnig hafa aðgang að ýmsum gagnlegum upplýsingum eins og gæðahandbók, fræðsluefni, samskiptakerfi milli bæjanna og lokaða spjallþræði sem nýtast í félagsstarfinu.

Ferðaþjónusta bænda hefur í rúm 30 ár kynnt og selt ferðaþjónustu bænda. Fyrst var starfsemin á vegum Félags ferðaþjónustubænda en frá árinu 1990 hefur sölustarfsemin verið í sér rekstrarfélagi í eigu bænda. Um 20 starfsmenn starfa nú á skrifstofu Ferðaþjónustu bænda hf. að Síðumúla 2 og ferðaþjónustubændur eru nú um 140 talsins.

Á myndinni fyrir ofan eru þeir Sævar Skaptason framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf, Marteinn Njálsson formaður Félags ferðaþjónustubænda og Össur Skarphéðinsson ráðherra. (Mynd og texti:  Tjörvi Bjarnason)

 

 

 

 

í nágrenni