10 félagar fá viðurkenningu vegna góðrar þjónustu frá Better Business



10 félagar fá viðurkenningu vegna góðrar þjónustu frá Better Business

04.12.2009 | Berglind Viktorsdóttir

Á Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda þann 20. nóvember síðastliðinn fengu 10 félagar í Ferðaþjónustu bænda viðurkenningu fyrir frábæra þjónustu.  Þetta er liður í gæðaverkefninu Gerum góða gistingu betri sem Ferðaþjónusta bænda lagði af stað með í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Better Business árið 2008.  Þetta er annað sumarið af þremur sem félögum gefst tækifæri á að taka þátt í þessu verkefni og tóku 17 ferðaþjónustubæir þátt í verkefninu í sumar. 

Þátttakendurnir í verkefninu fengu 3 hulduheimsóknir yfir sumarið og í framhaldi af því skýrslur um upplifun gestsins á staðnum, bæði varðandi þætti sem snerta aðbúnað og þjónustu, allt frá bókun til brottfarar.  Það er ánægjulegt að sjá hversu margir ferðaþjónustubæir fengu heildareinkunn yfir 8, sem telst vera mjög góður árangur, en þeir eru eftirfarandi:  Heydalur í Mjóafirði, Dæli í  Víðidal, Engimýri í Öxnadal, Öngulsstaðir í Eyjafirði, Skútustaðir við Mývatn, Brunnhóll á Mýrum, Smyrlabjörg í Suðursveit, Steig í Mýrdal, Hestheimar í Rangárþingi og Hótel Gullfoss við Brattholt

Mikil fjölbreytni endurspeglar hópinn sem fær viðurkenninguna, innan hans eru bæði gistihús bænda og sveitahótel með allt frá 14 upp í 90 gistirými (herbergi með og án baðs).  Það sem sameinar þessa staði er þægilegt andrúmsloft, persónuleg þjónusta, góður aðbúnaður og góður matur.  

Mjög ánægjuleg þróun er á milli ára.  Það má að sjálfsögðu þakka þátttakendum sjálfum, en jafnframt má geta þess að Ferðaþjónusta bænda nýtir niðurstöðurnar til að greina stöðuna eins og hún er í dag og finna leiðir fyrir félagsmenn til að bæta stöðu sína og auka samkeppnishæfni Ferðaþjónustu bænda á ferða- og gististaðamarkaði á Íslandi.   



Á myndinni eru þeir félagar sem voru viðstaddir afhendinguna:  Jón  Harrý og Lára frá Hótel Gullfossi, Helga Lea og Marteinn frá Hestheimum, Sigrún frá Dæli í Víðidal, Laufey á Smyrlabjörgum og Sigurlaug og Jón Kristinn frá Brunnhóli.

í nágrenni