Markaðsátakið Inspired by Iceland
01.06.2010
| Oddný Björg Halldórsdóttir
Nýlega var kynnt markaðsátakið Inspired by Iceland en því er ætlað að draga úr neikvæðum áhrifum vegna gossins, ásamt því að styrkja ímynd Íslands og skapa tækifæri úr þeirri umfjöllun sem landið hefur fengið á erlendum vettvangi.
Það eru stjórnvöld og ferðaþjónustan sem standa að þessu átaki. Stjórnvöld leggja til fé til jafns við það sem ferðaþjónustan leggur til. Við erum mjög stolt af því að taka þátt í þessu átaki með fjárframlagi og teljum að það eigi eftir að nýtast okkur til lengri tíma. Sóknarfæri okkar eru fyrir haustið og veturinn og vonumst við til að þetta átak skili okkur fleiri gestum.
Kynningarfundir um Ísland verða haldnir á helstu markaðssvæðum ferðaþjónustunnar í Evrópu og Bandaríkjunum. Sérstök áhersla verður lögð á að fá hingað til lands erlenda blaðamenn til þess að skrifa um Ísland sem áfangastað, og að fá fulltrúa erlendra ferðaheildsala til landsins til þess að kynna sér ástand mála á landinu af eigin raun. Markaðsátakið snýst um að kynna landið í heild sinni. Engin fyrirtæki verða sérstaklega kynnt heldur verður kynning á öllu því sem Ísland hefur uppá að bjóða s.s. menningu, náttúru, mat, afþreyingu og vellíðan.
Þungi átaksins verður í maí og júní og munu ferðaþjónustufyrirtæki erlendis og um land allt njóta góðs af átakinu og verða hvött til þess að ýta sér þá athygli sem það hefur í för með sér.
Efni, myndir, myndskeið o.fl. verða aðgengileg ferðaþjónustuaðilum sem vilja tengja sig átakinu, á vef Ferðamálastofu www.ferdamalastofa.is/inspired. Einnig verða samfélagsvefirnir Facebook, Twitter og Youtube nýttir.
Vonandi verða þessar aðgerðir til þess að það takist að fjölga erlendum ferðamönnum til Íslands. Við þurfum að leggja áherslu á söluna næsta haust og vetur því þar eru sóknarfærin.
Það er mikilvægt að allir leggi sitt lóð á vogarskálina til að koma skilaboðum um Ísland á framfæri: Ísland hefur aldrei verið jafn lifandi, nú er rétti tíminn til að heimsækja landið og upplifa. Við hvetjum alla til að fara inn á www.inspiredbyiceland.com og www.facebook.com/inspiredbyiceland til að segja söguna af því hvernig Ísland veitir innblástur.