Grænt föstudagskaffi þann 1. apríl



Grænt föstudagskaffi þann 1. apríl

05.04.2011 | Hildur Fjóla Svansdóttir

 
Í tilefni þess að GRÆNN APRÍL hófst á föstudeginum 1. apríl hélt starfsfólk á skrifstofu Ferðaþjónustu bænda daginn hátíðlegan með grænu þema.  Allir starfsmenn tóku virkan þátt með því að mæta klæddir í eitthvað grænt eða með eitthvað grænt svo í hverju horni mátti sjá eitthvað grænt og vænt. Í föstudagskaffinu, sem haldið er vikulega var að sjálfsögðu einnig grænt þema og að þessu sinni var það Hugrún, sölustjóri utanlandsdeildar sem sá um föstudagskaffið.  
 
Grænn APríl - Grænt föstudagskaffi með Guðrúnu Bergmann og Maríönnu FriðjónsdótturKjúklingasúpan hennar Hugrúnar hitti í mark en hráefnið í henni var íslenskt eins og margt annað sem var á borðum.  Markmið GRÆNS APRÍLS er að styðja við „sjálfbæra framtíð á Íslandi“ og til að taka slík skref þurfum við hjá Ferðaþjónustu bænda ekki annað en að leita til félaga okkar og að þessu sinni var því einnig m.a. boðið uppá egg og hunang frá Elliðahvammi og tómata frá Friðheimum. Á borðinu mátti líka finna sultuna Rabarbíu frá Löngumýri en svo skemmtilega vill til að einn starfsmaður, þ.e. hún Kristín Þóra er ein af þeim sem þróaði fyrstu vöruna úr þessari línu.  Punkturinn yfir i-ið voru pönnukökurnar, upprúllaðar með sykri, sultu og rjóma, það verður ekki meira íslenskt.  Að sjálfsögðu voru kertin og servíetturnar sem voru á borðum Svansvottaðar.
 
Gestir föstudagskaffisins voru Guðrún Bergmann og Maríanna Friðjónsdóttir sem eru forsprakkar verkefnsins GRÆNN APRÍL.  Að sjálfsögðu var helsta umræðuefnið um hvað og hvernig við getum gert enn betur á þessi sviði og gaman að sjá að margir luma á reynslusögum og pælingum varðandi þessi mál.  Þá komu ýmsar góðar hugmyndur upp úr græna kassanum, þ.e. hugmyndabanka starfsfólksins sem settur var upp í tilefni dagsins!
 
Við skorum á ferðaþjónustubændur og aðra að eiga allavega einn svona „grænan dag“ í aprílmánuði, til þess að minna okkur og aðra á það sem vel er gert og velta fyrir okkur hvað við getum gert enn betur!  
 
Lesa frétt Ferðaþjónusta bænda er GRÆNJAXL.
 
Starfsfólk FB í grænu
 

Hugmyndir sem komu upp úr Græna kassanum 1. apríl

  • Ruslavakt – Bæta inná eldhúsvaktina að hreinsa rusl við inngang hússins.  Tekur enga stund að tína upp mesta ruslið sem safnast fyrir við húsið, t.d. hægt að gera það um leið og farið er út með ruslið.
  • Grænn punktur vikunnar:  Setja upp „grænt horn! Á heimasíðu (farmholidays.is og sveit.is) fyrir fróðleiksmola/ráðleggingar um umhverfismál.  Þarf að vera lifandi þ.e. að koma með e-ð nýtt reglulega, t.d. vikulega??  Það væri einnig hægt að setja þessa punkta á Facebook.
  • Blóm á skrifstofuna.
  • Hjóla í stað þess að aka til og frá vinnu.
  • Nóg er að setja 1 tsk af uppþvottadufti í vélina.  1 tafla er of stór.
  • Skrúfa fyrir vatnið á meðan verið er að bursta tennur!
  • Legg til að fyrsti miðvikudagur hvers mánaðar verði bíllaus dagur.
  • Hafa upphengt blað, t.d. í eldhúsi, með yfirliti yfir viðurkennd umhverfismerki og fyrir hvað þau standa.  Mættu einnig vera fleiri merki eins og Fair Trade og „Nöglehusmerket“.
  • Við getum öll tekið okkur á og notað taupoka í staðinn fyrr að kaupa alltaf nýjan og nýjan plastpoka þegar við förum að versla.
  • FB splæsir taupoka á starfsfólk.  Minnka notkun plastpoka við innkaup og auglýsing fyrir FB ef lógó sett á pokana.
  • Strætóstyrkur - hvetja starfsmenn til að nota almenningssamgöngur og parkera bílnum.   – Kostnaðurinn væri ca. 35.000 p.persón á ári, þ.e.a.s. ef fyrirtækið myndi gefa starfsm. sínum árskort í strætó.
  • Grænn styrkur:  FB styrkir starfsfólk til að taka þátt í grænum verkefnum sbr. fara á námskeið tengd umhverfisvernd/fræðum.
  • Sameinast eitthvað í bíla í vinnu?  Hugsanlega flókið en má stoppa og rýna í þennan möguleika?
  • Athuga hvort mögulega hægt að nýta minna rafmagn hér.  Nýta betur /minnka álag á virkanir/sparnaður.  Eitthvað sem hægt að skoða heima hjá okkur sjálfum líka.
  • Grænt föstudagskaffi 1x í mánuði:  1x í mánuði grænn fyrirlestur í föstudagskaffi.  Hugsanlega eitthvað sem starfsfólk undirbýr sjálft, annað þar sem fengum utanaðkomandi aðila.
  • Umhverfisupplýsingar fyrir gesti:  Nýta veggi  gangsins til að setja smekklegar fræðandi upplýsingar varðandi umhverfi og umhverfisvernd?
  • Verum glöð!
     

í nágrenni