Tómatar og hestasýningar í Friðheimum – skemmtileg blanda!
30.09.2011
| Hildur Fjóla Svansdóttir
Þau Knútur og Helena í Friðheimum í Bláskógabyggð standa um þessar mundir í heilmiklum framkvæmdum. Til stendur að auka framleiðslu á Friðheima-tómötum og er byrjað að vinna að því að byggja rúmlega 2000 m2 gróðurhús til viðbótar við það sem er til staðar. Í allt mun tómataræktun vera í 5200 m2 gróðurhúsum. Áætlað er að setja niður tómataplöntur í nóvember og uppskera eftir næstu áramót. Friðheimar eru þátttakendur í Opnum landbúnaði, þar sem gestum gefst tækifæri á að heimsækja bóndabæi og kynna sér þau störf sem unnin eru í sveitum landsins.
Í Friðheimum er einnig boðið upp á stutta og hnitmiðaða hestasýningu þar sem farið er yfir sögu og gangtegundir íslenska hestsins á fræðandi og skemmtilegan hátt. Þeir gestir sem hafa áhuga á grænmetisræktun gefst einnig kostur á að skoða tómataræktun á bænum í framhaldi af hestasýningunni. Knútur og Helena hafa hug á að útbúa frekari aðstöðu til að taka á móti gestum í gróðurhúsinu og mun sú aðstaða verða tilbúin næsta vor.
Fyrir nokkru var farið í fjölskylduferð héðan af skrifstofunni til félaga okkar í Friðheimum og hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá þeim góða degi. Það er óhætt að segja að hestasýningin og heimsóknin í gróðurhúsið hafi hitt í mark hjá öllum í hópnum, bæði stórum og smáum.