Retro Stefson í æfingabúðum á Hótel Laugarhóli
02.04.2012
| María Reynisdóttir
Hljómsveitin Retro Stefson hefur átt góðu gengi að fagna síðustu misseri og sló meðal annars í gegn á Iceland Airwaves hátíðinni í fyrra. Hljómsveitarmeðlimir hafa dvalið undanfarin misseri á
Hótel Laugarhóli á Ströndum við æfingar fyrir nýja plötu sem kemur út síðar á árinu.
„Það er nauðsynlegt að fara í smá einangrun þegar maður er að æfa nýtt efni,“ segir Unnsteinn Manuel Stefánsson, forsprakki hljómsveitarinnar Retro Stefson í viðtali við Fréttablaðið. Unnsteinn segir að sveitin sé þegar búin að taka upp fimm lög í hljóðveri og ætli sér að æfa næstu fimm á Ströndum.
„Við verðum á Hótel Laugarhóli sem föðurbróðir minn rekur en ég hef dvalið þar með hléum síðustu tvo mánuði, meðal annars til að passa hundana. Það er frábært að vera þar á þessum tíma árs og mikil kyrrð og friður,“ segir Unnsteinn og bætir við að það sé nauðsynlegt fyrir hljómsveitina að koma í veg fyrir utanaðkomandi truflun við æfingar. „Það er gott að kúpla sig út og það getur enginn skroppið í hádegismat til ömmu eða legið á netinu eins og Logi bróðir,“ segir Unnsteinn.
Um Hótel Laugarhól
Hótel Laugarhóll er friðsælt og heimilislegt fjölskyldurekið sveitahótel í gróðursælum dal miðsvæðis á Ströndum. Þar er góð gistiaðstaða í 16 tveggja manna herbergjum, veitingastaður með útsýni yfir fjörðinn og ylvolg 25 metra útilaug, Gvendarlaug. Hótel Laugarhóll er frábærlega staðsett fyrir dagsferðir um Strandirnar og nágrannabyggðarlög og margvísleg afþreying er innan seilingar s.s. silungsveiði, sjóstöng, söfn, gönguleiðir og hestaleiga.
Meiri upplýsingar um Hótel Laugarból má finna hér.
Hér má hlusta á nýjustu smáskífu Retro Stefson, Qween og hér má sjá myndband við hið vinsæla lag þeirra, Kimba.