Tröllatapas í Fossatúni
17.04.2012
| María Reynisdóttir
Kaffi Vínyll, veitingahúsið í Fossatúni, mun verða opið allar helgar í apríl og maí frá kl. 11 – 17. Sérstakt hádegistilboð verður kynnt til sögunnar sem samanstendur af tröllatapasi og súpu dagsins en einnig verða á boðstólum heimabakaðar kökur, brauðmeti, kaffi og önnur drykkjarföng.
Tröllatapas byggir á hugmynd sem þróuð hefur verið í Fossatúni og er blanda af rúgbrauðssnittum og smáréttum; alls yfir 20 tegundir. Uppistaðan er íslenskt hráefni úr héraði og heimagert í Fossatúni. Boðið verður upp á 3-4 gerðir í hverju hádegi með súpu dagsins á afar hagstæðu verði: 1.400 kr.
Þá er ætlunin að bjóða einnig upp á tröllatapas á kvöldin með rétti dagsins á virkum dögum og svo helgarsteikinni, frá og með Hvítasunnu, 24 maí n.k.
Voropnun í Fossatúni er til þess gerð að lengja og auka aðgengi ferða- og heimafólks að því sem í boði er á Vesturlandi. Á Kaffi Vínyl er einnig að finna 3.000 vinylplötur úr safni eiganda og gefst gestum tækifæri á að skoða og velja eitthvað skemmtilegt og hlusta á í gömlum eðalgræjum. Einnig er tilvalið að rölta í tröllagöngu og fara í tröllaleiki eða bara að njóta útsýnisins yfir Tröllafossa og til Skessuhorns frá veitingahúsinu. Þá verður boðið upp á sýningu á Accoustic Iceland/Hljómfagra Ísland í hádeginu.
Meiri upplýsingar um Fossatún.