Skjaldarvík í Eyjafirði hlýtur viðurkenningu Vakans



Skjaldarvík í Eyjafirði hlýtur viðurkenningu Vakans

19.04.2016 | Bryndís Pjetursdóttir

Á dögunum hlaut Ferðaþjónustan Skjaldarvík í Eyjafirði viðurkenningu og brons-umhverfismerki Vakans. Gistiheimilið Skjaldarvík sem er félagi í Ferðaþjónustu bænda, hlaut viðurkenningu sem fjögurra stjörnu gistiheimili og hestaleigan í Skjaldarvík fékk viðurkenningu Vakans sem viðurkennd ferðaþjónusta.

 
Skjaldarvík hlýtur viðurkenningu Vakans

Á mynd frá vinstri Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda, ásamt Bryndísi og Ólafi frá Skjaldarvík 

Persónuleg þjónusta og heimilislegt andrúmsloft

Á Skjaldarvík er lögð áhersla á persónulega þjónustu og viðmót. Andrúmsloftið er heimilislegt og gististaðurinn fjölskylduvænn en ýmislegt er í boði til skemmtunar og útivistar fyrir unga sem aldna. Verndun umhverfisins og endurnýting er rauður þráður í rekstri ferðaþjónustunnar þar sem gamlir munir fá nýtt líf og jafnvel nýtt hlutverk sem skapar gistiheimilinu skemmtilega sérstöðu. Á veitingastaðnum er nánast allt unnið frá grunni, brauðin bökuð á staðnum, sultur soðnar og grænmeti og kryddjurtir ræktað í heimilisgarðinum eftir því sem kostur er.

 
Hestaferð

Hestaleigan í Skjaldarvík fékk viðurkenningu Vakans sem viðurkennd ferðaþjónusta 

 
Ferðaþjónustan í Skjaldarvík er fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Bryndísar Óskarsdóttur og Ólafs Aðalgeirssonar en dætur þeirra Klara, Katrín og Sunneva taka virkan þátt í rekstrinum. Fjölskyldan tók við Skjaldarvík árið 2010 og hófu rekstur ferðaþjónustunnar.Nú er þar starfrækt gistiheimili, hestaleiga og veitingastaður með áherslu á afurðir úr heimabyggð.

Nánari upplýsingar um Skjaldavík í Eyjafirði og Vakann

Við óskum Bryndísi, Ólafi, Klöru, Katrínu og Sunnevu til hamingju með áfangann!

í nágrenni