Brekkulækur hlýtur Nordis Travel Award verðlaunin
14.04.2016
| Bryndís Pjetursdóttir
Nýlega hlaut Arinbjörn Jóhannssson-Erlebnistouren, fyrirtæki Arinbjarnar á Brekkulæk í Miðfirði sem er ferðaþjónustubær innan vébanda Ferðaþjónustu bænda, fyrstu verðlaun Nordis Travel Award í flokki viðkomustaða. Verðlaunin voru veitt fyrir ferðina Schafe, Herbstluft, Seehunde sem er 12 daga ferð þar sem þátttakendum gefst m.a. tækifæri til að upplifa smalamennsku og réttarstörf.
Mynd: Maríus Jónasson (2. f.v.) leiðsögumaður veitti verðlaununum viðtöku (© Nordis)
Um Nordis Travel Award
Verðlaunin voru veitt af þýska Nordis-forlaginu sem gefur einnig út tímaritiðNordis Das Nordeuropa-Magazin sem hefur um áratuga skeið verið eitt virtasta sinnar tegundar á þýsku málsvæði. Í umsögn dómnefndar sem skipuð var ferðablaðamönnum og fulltrúum Nordis útgáfunnar segir að ferðin mæti sérlega vel kröfum um upplifun, trúverðugleika og nýsköpun, auk þess sem verð og gæði fari vel saman.
Mynd: Úr verðlaunaferðinni (© Arinbjörn Jóhannsson)
Ferðaþjónusta á Brekkulæk frá 1979
Arinbjörn Jóhannsson á Brekkulæk hefur rekið ferðaþjónustu sína frá árinu 1979 og tekur árlega á móti um fimm hundruð gestum, aðallega í hesta- og gönguferðir. Þess má geta að á Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda 2013 hlaut Arinbjörn hvatningarverðlaun frá starfsfólki skrifstofunnar en hann hefur sýnt mikla þrautseigju í gegnum tíðina og því er þetta kærkomin viðurkenning fyrir áratuga starf.
Við óskum Arinbirni og hans fólki innilega til hamingju með þessi glæsilegu verðlaun.