Ferðaþjónusta bænda fær Starfsmenntaviðurkenningu SAF
23.02.2009
| Berglind Viktorsdóttir
Ferðaþjónusta bænda hlaut starfsmenntaviðurkenningu Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), þegar þau voru veitt öðru sinni, á Degi menntunar ferðaþjónustu, fimmtudaginn 19. febrúar.
Í rökstuðning samtakanna segir að „Ferðaþjónusta bænda, sem hlutu verðlaunin, hafa með skýrri sýn lagt áherslu á mikilvægi starfsmenntunar í allri starfsemi sinni með það að markmiði að auka starfsánægju félaga í samtökunum og síðast en ekki síst til að ná samkeppnisforskoti og auka arðsemi í rekstri fyrirtækisins með aukinni starfsmenntun,“ segir í fréttatilkynningu.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að einkum hafi eftirfarandi legið til grundvallar ákvörðunar hennar: Góð nýting allra möguleika til markvissrar stefnu í menntunarmálum, m.a. með þjónustuvef ferðaþjónustbænda, með rafrænni handbók bænda, fjölbreytilegum námskeiðum og fræðsludögum í tengslum við uppskeruhátíð samtakanna. Fyrirtækið hefur náð ákveðnu samkeppnisforskoti með beinum hætti gegnum markvissa símenntunarstefnu. Markviss stefna fyrirtækisins og fast verklag við að innleiða vottunarferlið Green Globe þar sem umhverfis- og gæðamál eru höfð að leiðarljósi. Nýting á fjármagni frá Leonardó- mannaskiptaverkefninu til nýsköpunar. Samvinna við Hólaskóla með markvissum hætti um að efla gæði og þjónustu í ferðaþjónustu í dreifbýli með fræðslu.
Mat á frammistöðu ferðaþjónustubænda í samstarfsverkefni við Better Business um það sem vel er gert og betur má fara og niðurstöður nýttar til að vanda enn betur þjónustu og aðbúnað gesta.
Í stefnu SAF á sviði fræðslu og menntamála kemur fram að eitt af höfuðmarkmiðum sé að bæta arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og að hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til menntunar, símenntunar og þjálfunar. Dagur menntunar í ferðaþjónustu er liður í ofangreindum markmiðum þ.e. að vekja athygli atvinnurekanda á mikilvægi menntunar, símenntunar og þjálfunar starfsfólks.(www.mbl.is)
Það er mikill heiður og hvatning sem fylgir því að fá viðurkenningu sem þessa, bæði fyrir ferðaþjónustubændur og okkur sem erum að vinna með þeim. Það er nefnilega þannig að fræðsla og menntun fær fólk til að hugsa, fá hugmyndir og setja þær niður á blað. Þetta er nokkurs konar hugarleikfimi og eins og með líkamann þá þarf að halda honum í formi og því er mikilvægt að við höldum áfram að hugsa, fá hugmyndir og framkvæma því að þannig verðum við öflugri og við verðum enn öflugri ef við erum samstíga í að vera fyrirmyndar ferðaþjónustulandið Ísland.