Ágætis ferðasumar - undirbúningur fyrir næsta ár er hafið!
25.08.2009
| Berglind Viktorsdóttir
Sumarið hefur gengið vel hjá Ferðaþjónustu bænda í sumar og er ljóst að bæði erlendir jafnt sem innlendir gestir kunna vel að meta þá þjónustu sem ferðaþjónustubændur hafa upp á að bjóða.
Það sem gerir Ferðaþjónustu bænda sem félagasamtök einstök er tengingin við sveitina, gott aðgengi um allt land og fjölbreytnin innan samtakanna. Félagar í Ferðaþjónustu bænda bjóða upp á fjölbreytta gistimöguleika; heimagistingu, gistihús bænda, sveitahótel og sumarhús auk þess sem margir bjóða upp á veitingar og ýmis konar afþreyingarmöguleika t.d. gönguferðir, hestaferðir, veiði, golf og fjölskylduvæna afþreyingu. Þá skipar matur mikilvægari sess í ferðaþjónustu en áður og leggja ferðaþjónustubændur víða áherslu á heimilislegan mat og mat úr héraði. Ferðaþjónusta bænda er með eigið gæðakerfi og flokkunarkerfi á gistingu og hefur sú vinna skipt miklu máli hvað varðar bættan aðbúnað og þjónustu við gesti.
Ferðaskrifstofan Ferðaþjónusta bænda-Bændaferðir sem er í eigu bænda sér um markaðs- og kynningarmál allra félaga í Ferðaþjónustu bænda. Með því að gerast aðili að Félagi ferðaþjónustubænda (hagsmunafélaginu) fer viðkomandi inn í allt kynningarefni sem gefið er út af ferðaskrifstofunni og má þar nefna www.sveit.is, www.farmholidays.is og upplýsingabæklinga á ensku og íslenska bæklinginn Upp í sveit. Kynningar- og markaðsstarfið nær víða um heim auk þess sem Ferðaþjónusta bænda hefur sett upp bókunarvef sem gefur viðskiptavinum tækifæri til að bóka gistingu beint í gegnum netið.
Undirbúningur fyrir árið 2010 er hafinn og vill Ferðaþjónusta bænda gefa ferðaþjónustuaðilum sem stunda ferðaþjónustu á lögbýlum en eru ekki félagsmenn tækifæri til að sækja um aðild. Mikilvægt er að starfsemin hafi öll tilskilin leyfi og að ferðaþjónusta hafi verið starfandi í sumar. Umsóknareyðublöð eru að finna hér en auk þess gefur Berglind gæðastjóri nánari upplýsingar um málið (netfang: berglind@farmholidays.is, beinn sími: 570-2706).