Skemmtilegt sumar á Ytra-Álandi í Þistilfirði!



Skemmtilegt sumar á Ytra-Álandi í Þistilfirði!

26.08.2009 | Berglind Viktorsdóttir

Það hefur verið nóg að gera í sumar hjá ferðaþjónustubændunum Bjarnveigu og Skúla á Ytra-Álandi  og margir góðir gestir komið við. En það eru tvær uppákomur sem standa upp úr eftir sumarið er það Rauðanesdagurinn sem var haldinn um Jónsmessuleytið og Kátir dagar sem haldnir eru á Þórshöfn og nágrenni um miðjan júlí.
 

Rauðanes og Rauðanesdagurinn
Rauðanes í Þistilfirði er náttúruperla sem nýtur sívaxandi vinsælda ferðafólks. Þar er skemmtileg gönguleið sem unglingarnir í sveitinni merktu  fyrir nokkrum árum.  Einnig unnu skólabörnin í Svalbarðsskóla fallegan og fræðandi bækling um Rauðanesið sem fólk getur gripið með sér við byrjun gönguleiðarinnar.

Það voru hjónakornin sjálf á Ytra-Álandi sem stóðu fyrir Rauðanesdeginum, sem náði bæði yfir laugardag og sunnudag um Jónsmessuleytið og lukkaðist allt vel. Á laugardagsmorgni var boðað til Rauðanesgöngu með leiðsögn  og að göngu lokinni var boðið uppá léttan hádegisverð á Ytra-Álandi. Artictic Travel var með síðdegis- og kvöldsiglingu  frá Þórshöfn  út Þistilfjörð að Rauðanesi og fullbókað var í báðar ferðirnar. Siglt var út Þistilfjörð að Rauðanesi og fullbókað var í báðar ferðirnar.  Í kvöldsiglinguna var fenginn harmonikkuleikari til að spila um borð og boðið var uppá léttar veitingar (kúfisk og hvítt, rauðaneshringi , kakó og fl.)  Skemmtileg stemmning myndaðist og var sungið og trallað.  Á sunnudeginum var aftur boðað til göngu á Rauðanesið þá kl. 14:00 með leiðsögn. Að lokinni göngu voru kaffiveitingar í Svalbarðsskóla.  Mjög góð þátttaka var i göngunni.  Skúli sá um leiðsögn bæði á sjó og landi. Að koma á skipulögðum gönguferðum um Rauðanesið og siglingum  að Rauðanesi  hefur lengi verið í deiglunni  en nú er þetta örugglega komið til að vera!

Í gegnum þetta verkefni hefur skapast gott samstarf ferðaþjónustuna Arctic Travel sem býður líka upp á siglingar norður yfir heimskautsbaug, útsýnissiglingar inn Þistilfjörð og sjóstangveiði.


Kátir dagar

Dagana 14.-19. júlí voru Kátir dagar haldnir á Þórshöfn og nágrenni.  Sunnudaginn 19.júlí var haldin menningarsamkoma með þjóðlegu þema „Inn milli fjallanna“ í Svalbarðsskóla sem heppnaðist einstaklega vel.   Nafnið er þannig  tilkomið að í fyrrasumar var haldin  menningarsamkoma, þá tileinkuð ævi og störfum Jóns Trausta og  þótti  við hæfi að nota þessa fyrstu  ljóðlínu úr ljóði hans „Inn milli fjallanna“ sem nafn á samkomuna.  Að  þessu sinni var hluti dagskrárinnar  tileinkaður skáldinu.   Dagskráin hófst með göngu  kl 10.00 um slóðir Höllu og heiðarbýlisins sem er á Öxarfjarðarheiðinni. Gengið að Hrauntanga þaðan í Kvíaborgir  sem er sérstakt náttúruundur þar sem sjá má hella, nokkra helllisskúta og hraundranga.
 
Menningardagskráin hófst síðan í Svalbarðsskóla  kl 14.00 Kynnir var Fanney Ásgeirsdóttir fyrrum skólastjóri á Svalbarði.  Heimafólk af yngri kynslóðinni bæði úr Þistilfirði og Þórshöfn myndaði dansflokk   og sýndu  þjóðdansinn „Vefarann“.  Sýningin var glæsileg  og flestir í íslenskum  í þjóðbúningum.  Yngstu börnin sýndu nokkra gamla dansa og voru frábær eins og þeirra er von og vísa.  Þá var Kristín Sigfúsdóttir frá Gunnarsstöðum  með sérlega líflega og skemmtilega frásögn frá liðnum bernskudögum við leiki og störf í sveitinni. Heimafólk sýndi gömul vinnubrögð aðallega við tóvinnu. Einnig  var boðið upp á smakk af grasamjólk og heimagerðu skyri.  En að sjálfsögðu svignuðu borðin undan hnallþórum og öðrum  kræsingum sem runnu ljúflega niður með ilmandi súkkulaði. Þistilfjörður skartaði sínu fegursta þennan dag og stemmningin var frábær!  Allir sem leitað var til varðandi aðstoð bæði Þistlar, Þórshafnarbúar og fleiri voru mjög  jákvæðir og tilbúnir að leggja sitt að mörkum til að gera daginn skemmtilegan. Þau eiga öll miklar þakkir skyldar.


Það er leikur að læra

Þess má geta að síðastliðinn vetur var haldið námskeið í svæðisbundinni leiðsögn á svæðinu og að sjálfsögðu voru Bjarnveig og Skúli á meðal þátttakenda.  Námskeiðið var mjög gagnlegt og gott og ljóst er að það hefur gefið þeim ákveðinn innblástur fyrir þetta vel heppnaða sumar.

 

í nágrenni