Stefnumót við íslenska hestinn í Friðheimum í Reykholti
28.09.2009
| Berglind Viktorsdóttir
Föstudaginn 25.september bauð fjölskyldan í Friðheimum í Reykholti ferðaskrifstofum, leiðsögumönnum og öðru ferðaþjónustufólki á kynningu á sýningunni „Stefnumót við íslenska hestinn“.
Sýningin kynnir ferðamönnum á lifandi hátt sögu og gangtegundir íslenska hestsins. Öll fjölskyldan tekur þátt í sýningunni og er yngsti knapinn aðeins 4 ára gamall. Boðið var upp á heimalagaða tómatsúpu og fleiri ljúffengar veitingar. Eftir sýninguna var einnig kíkt í gróðurhúsin en þar eru ræktaðir tómatar allt árið.
Þess má geta að fyrr á þessu ári hlutu ferðaþjónustubændurnir í Friðheimum, þau Knútur og Helena hvatningaverðlaun garðyrkjunnar 2009. Í frétt þessu máli tengdu á www.sveitir.is frá 5. maí kemur fram að Knútur og Helena keyptu Friðheima í Biskupstungum árið 1995 en þá var Helena nýútskrifuð úr Garðyrkjuskóla ríkisins og Knútur nýútskrifaður frá Hólaskóla.
Þau hafa byggt garðyrkjustöð sína upp skref fyrir skref og rækta nú tómata í 3000 fm gróðurhúsum með lýsingu allan ársins hring Fram kom í ræðu ráðherra að framanaf hafi þau stundað hefðbundna ylrækt en hófu að rækta við gjörlýsingu árið 2002. Þau sérhæfðu sig í tómataræktun með áherslu á að auka fjölbreytni í tegundum hérlendis og voru fyrst til að rækta konfekttómata og plómutómata við lýsingu allt árið. Þau hafa verið ötul að sækja sér fagþekkingu erlendis og hafa tekið virkan þátt í félagsstörfum garðyrkjubænda.
Árið 2007 færðu Knútur og Helena út kvíarnar og vígðu hestamiðstöð, þar sem þau bjóða upp á faglega sögu og gangtegundasýningu fyrir ferðamenn. Í tengslum við það hafa þau opnað gróðurhúsin fyrir áhugasama þar sem þau hafa boðið upp á leiðsögn um húsin og fræðslu um ræktun tómata. Heimsókn á Friðheima hefur opnað augu margra fyrir þeirri fjölbreytni sem íslenskur landbúnaður býður upp á og er öðrum hvatning til nýsköpunar.
Vel gert hjá þeim Knúti og Helenu og óskum við þeim innilega til hamingju með þennan góða árangur!