Norðurljós og geitur í Vatnsholti
19.01.2011
| Hildur Fjóla Svansdóttir
Þessa dagana streyma erlendir ferðamenn til félaga okkar í Vatnsholti til að skoða norðurljósin. Hér eru á ferðinni skipulagðar kvöldferðir frá Reykjavík og taka Margrét og Jóhann á móti gestum með kaffi, kakói og bakkelsi.
Ef norðurljósin sjást ekki á himnum þá hefur það vakið lukku hjá gestum að hitta fyrir geiturnar Elvis og Priscillu og hænurnar á bænum en þær kunna ýmsar kúnstir enda hafa þær verið í læri hjá honum Jóhanni ferðaþjónustubónda.
Þetta sýnir okkur að það leynast víða tækifæri utan háannatíma. Það sem þarf er góður skammtur af frumkvæði, kjarki og vilja til þess að koma hlutum í framkvæmd. Þannig byggjum við saman upp heilsársferðaþjónustu á Íslandi.
Norðurljósamyndin var tekin á hlaðinu í Vatnsholti í janúarmánuði.