Þórbergssetur á Hala í Suðursveit fékk tilnefningu til Eyrarrósarinnar
15.02.2011
| Hildur Fjóla Svansdóttir
Eyrarrósin 2011 var afhent á Bessastöðum 13. febrúar síðastliðinn og var Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit eitt þriggja verkefna sem fékk tilnefningu að þessu sinni ásamt Sumartónleikum í Skálholti og 700IS Hreindýraland Egilsstöðum. Það voru Sumartónleikar í Skálholti sem fengu Eyrarrósina í ár, en það er mikill heiður fyrir félaga okkar þau Þorbjörgu og Fjölni á Hala að fá þessa tilnefningu og óskar Ferðaþjónusta bænda þeim innilega til hamingju með hana.
Eyrarrósin 2011 er viðurkenning fyrir afburða menningarverkefni á landsbyggðinni og er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Markmið með Eyrarrósinni er að efla fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Þórbergssetur er menningarsetur reist til minningar um Þórberg Þórðarson rithöfund, en þar eru sýningar helgaðar sögu Suðursveitar, ásamt lífi og verkum rithöfundarins. Fjölbreytt menningarstarfssemi er í gangi allt árið á Þórbergssetri, þar sem hægt er að skoða safnið, heimsækja minjagripaverslun og fá sér kaffi eða mat á veitingahúsi staðarins.
Heimasíða Þórbergsseturs.
Sjá nánar um Hala í Suðursveit.