Ferðaþjónusta bænda er GRÆNJAXL
31.03.2011
| Hildur Fjóla Svansdóttir
Ferðaþjónusta bænda tekur þátt í verkefninu GRÆNN APRÍL, en á bakvið verkefnið standa félagasamtök einstaklinga sem hafa áhuga á umhverfismálum. Markmið samtakanna er að auka umræðu um umhverfið og kynna vöru, þekkingu og þjónustu sem stuðlar að grænni og umhverfisvænni framtíð með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ferðaþjónusta bænda er einn af GRÆNJÖXLUM verkefnisins, en það eru bakhjarlar sem styðja verkefnið með fjárframlagi.
Innan Ferðaþjónustu bænda eru um 160 bæir sem bjóða upp á fjölbreytta gistingu, máltíðir og afþreyingu um allt land. Hver staður og nánasta umhverfið er sú auðlind sem félagar okkar byggja á og þess vegna er mikilvægt að okkar félagar taki virkan þátt í að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Að sama skapi leynast mörg tækifæri fyrir ferðaþjónustubændur til að veita ferðamönnum einstaka upplifun með nánum tengslum við sveitir landsins, menningu, náttúru og landbúnað.
Ferðaþjónusta bænda hf. er ferðaskrifstofa sem leggur áherslu á náttúru- og menningartengda ferðaþjónustu. Skrifstofan er með þá stefnu að vera í fararbroddi í sjálfbærri ferðaþjónustu hér á landi. Með sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi leggur ferðaskrifstofan sitt af mörkum til að draga úr neikvæðum áhrifum greinarinnar á umhverfið. Skrifstofan er með umhverfisvottun frá EarthCheck sem er alþjóðleg umhverfisvottunarsamtök sem stuðla að sjálfbærari ferðaþjónustu.
Við vitum að það er alltaf hægt að gera betur og það á bæði við um fyrirtæki og einstaklinga.
Það er því með ánægju sem Ferðaþjónusta bænda tekur þátt í verkefninu GRÆNN APRÍL.