Tímamót í skráningu og upplýsingagjöf um aðgengi fatlaðra
06.06.2011
| Hildur Fjóla Svansdóttir
Hótel KEA, Menningarhúsið Hof , Hótel Natur, Ferðaþjónustan Skjaldarvík og Ferðaþjónustan Öngulstöðum var afhent fyrst allra á Norðurlandi vottun aðgengis á Hótel KEA föstudaginn 3.júní sl. Þessir aðilar hafa látið taka út mannvirki sín með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða og birta upplýsingarnar á veraldarvefnum www.accessIceland.is, fyrir notendur. Á Íslandi starfar fyrirtækið Aðgengi sem sérhæfir sig í slíkum úttektum og veitir fyrirtækjum, stofnunum, sveitafélögum og öðrum aðilum vottun um aðgengi, eftir danskri fyrirmynd, og er rekið af Hörpu Cilia Ingólfsdóttur. Fyrirtækið hefur verið starfrækt frá árinu 2005 og hefur á þeim tíma tekið út fjölda mannvirkja, bæði á byggingarstigi sem og eldri byggingar, með aðgengi fatlaðra í huga. Aðgengismerkjakerfið er frá því í desember 2010 og fer vel af stað með þessum öflugu fyrirtækjum.
„Þegar talað er um aðgengi fatlaðra kemur yfirleitt upp í hugann hjá fólki mynd af manneskju í hjólastól. Skilgreining á fötlun getur engu að síður átt við handa- eða gönguskerta, ofnæmis- og astmaveika, fólk með lestrarörðugleika og sjónskerta sem og þroskahamlaða og heyrnaskerta.“ Segir Harpa, „Flest öll okkar verða fyrir því einhvern tímann á ævinni að þurfa á sérstöku aðgengi á að halda en um 60.000 Íslendingar eru nú þegar í þessum markhópi frá degi til dags. Talan er svo mun hærri þegar horft er til Evrópu en talið er að um 100 milljónir manna í Evrópu hafi not af upplýsingum um aðgengi.“
Aðgangur almennings að þessum upplýsingum er varðar Ísland hefur ekki verið til staðar fyrr en nú. Á heimasíðu Góðs aðgengis: www.accessiceland.is eru upplýsingar um öll sjö merkin og leitarvél sem auðveldar almenningi aðgang að upplýsingum um vottaða staði og hvernig aðgengið er á þessum stöðum.
Ferðaþjónusta bænda er stolt af því að ferðaþjónustubændur séu meðal þeirra fyrstu til að taka upp þetta kerfi og óskum við þeim innilega til hamingju með þennan áfanga. Merki Góðs aðgengis verður sjáanlegt á bæjarsíðum þeirra ferðaþjónustubænda sem hafa látið taka út mannvirki sín með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða á sveit.is og farmholidays.is.