Þriðja áfallið af völdum náttúruhamfara á réttu ári
11.07.2011
| Hildur Fjóla Svansdóttir
Ferðaþjónustubændur sem og allir íbúar á nærsvæði Mýrdalsjökuls, standa nú frammi fyrir þriðja áfallinu af völdum náttúruhamfara á réttu ári. Íbúar hafa sýnt mikið æðruleysi á þessum erfiðu tímum, þar sem afkomu þeirra hefur verið ógnað æ ofan í æ. Því reynir nú verulega á að lágmarka með öllum tiltækum ráðum, það tjón sem leiðir af rofnu vegsambandi.
Félag ferðaþjónustubænda skorar á yfirvöld samgöngumála að vinna með hraði að því að opna þjóðveg 1, sem er rofinn eftir að brúna yfir Múlakvísl tók af í jökulflóði úr Mýrdalsjökli. Við lýsum skilningi okkar á því að það taki nokkurn tíma að gera fært yfir ána á nýrri brú, jafnvel þó til bráðabirgða sé, en með þeim stórvirku vinnuvélum sem tiltækar eru, hvetjum við til að unnið verði að því að koma á vegasambandi um hjáleið og að þeim aðilum sem ekki treysa sér til að aka um slíka vegslóð verði veitt aðstoð.
Horft er til ferðaþjónustunnar við endurreisn Íslands og víða er hún að verða einn af hornsteinum byggðar á landsbyggðinni. Það er því afdráttarlaus krafa okkar að menn sýni þann vilja í verki með því að láta einskis ófreistað að koma á vegasambandi um hringveginn án tafar, nú þegar í hönd fer hábjargræðistíminn í ferðaþjónustunni. Slíkt er ekki aðeins mikilvægt fyrir þá sem næst búa, heldur ekki síður fyrir orðspor Íslands sem trúverðugs áfangastaðar ferðamann til framtíðar.
Frá félagi ferðaþjónustubænda, 10. Júlí 2011
F.h. stjórnar Félags ferðaþjónustubænda
Sigurlaug Gissurardóttir, formaður