Viðurkenningar til ferðaþjónustubænda 2015
23.11.2015
| Bryndís Pjetursdóttir
Uppskeruhátíð Félags ferðaþjónustubænda var haldin hátíðleg mánudaginn 16. nóvember síðastliðinn í Reykjavík. Á hátíðinni veitti starfsfólk skrifstofu Ferðaþjónusta bænda félagsmönnum viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur og hvatningaverðlaun en alls fá 6 bæir viðurkenningu, þrír í hvorum flokki. Þetta er í fimmta skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar.
Framúrskarandi ferðaþjónustubær 2015 fengu Gistiheimilið Lambastöðum, Hraunmörk við Selfoss og Ferðaþjónustan Mjóeyri. Verðlaunin eru veitt fyrir einstaka frammistöðu á árinu og byggist matið á umsögnum gesta og þeim gæðum sem staðurinn stendur fyrir að mati skrifstofu Ferðaþjónustu bænda.
Mynd frá vinstri Almar og Svanhvít frá Lambastöðum, Rósa frá Hraunmörk og Berglind og Sævar frá Ferðaþjónustunni Mjóeyri.
Hvatningarverðlaunin 2015 fengu Breiðavík við Látrabjarg, Sel í Grímsnesi og Brunnhóll á Mýrum. Verðlaunin eru veitt fyrir einstaka og vel útfærða hugmynd og frumkvæði að uppbyggingu í ferðaþjónustu, sem miðar að skemmtilegri og innnihaldsríkri upplifun fyrir gestina að mati starfsmanna skrifstofunnar.
Mynd frá vinstri Maggý frá Breiðavík, Sigurlaug og Jón Kristinn frá Brunnhóli og Árni Kristinn frá Seli í Grímsnesi.
Starfsfólk skrifstofu Ferðaþjónustu bænda óskar ferðaþjónustubændum innilega til hamingju með viðurkenningarnar. Það eru margir frambærilegir staðir innan Ferðaþjónustu bænda og er það von starfsfólksins að þessar viðurkenningar sem veittar eru árlega verði öðrum hvatning til þess að vanda til verka og skara fram úr á sínu sviði – hver á sinn einstaka hátt.